21:41
{mosimage}
Forráðamenn NBA-liðsins New York Knicks komu nokkuð á óvart í gær þegar þeir tilkynntu að búið væri að semja við fyrrverandi leikmann liðsins, Allan Houston, en hann hefur ekkert leikið vegna meiðsla undanfarin tvö ár. Houston er 36 ára gamall en hann hefur glímt við erfið meiðsli á undanförnum misserum.
,,Ég hef stefnt að því með markvissum hætti að koma til baka í NBA-deildina og það kom aldrei neitt annað lið til greina," sagði hinn 36 ára gamli bakvörður í gær þegar tilkynnt var um endurkomu hans í deildina. "Ég er með hjarta sem slær með Knicks og ég ætla að reyna að hjálpa liðinu að taka skref í átt að meistaratitlinum."Houston lék síðast heilt tímabil án þess að meiðast 2002-2003 en á þeim tíma skoraði hann 22,5 stig að meðaltali í leik. Hann skoraði sigurkörfu Knicks gegn Miami Heat árið 1999 í oddaleik í 1. umferð úrslitakeppni Austurdeildar. Meistaralið San Antonio Spurs og Cleveland Cavaliers höfðu bæði sett sig í samband við Houston en hann valdi Knicks þrátt fyrir að sárafáir hafi trú á því að liðið geti barist um meistaratitilinn á næstu leiktíð.



