Þrír leikir fóru fram á Evrópumeistaramóti karla í körfuknattleik í dag þar sem Frakkar héldu sigurgöngu sinni áfram með tveggja stiga sigri á Grikkjum, 71-69. Þá vildi einnig svo skemmtilega til að sömu tölur komu upp í viðureign Rússa og Makedóna þar sem Rússar höfðu betur. Í þriðja og síðasta leik dagsins voru það svo Króatar sem lögðu Þjóðverja 70-68.
Fjögur lið hafa þá tryggt sér sæti í 8 liða úrslitum mótsins en það eru Frakkar, Grikkir, Rússar og Króatar. Á morgun skýrist það svo hver hin fjögur liðin verða þegar þrír síðustu leikirnir í milliriðlum fara fram.
Hinn 22 ára gamli Frakki Nando De Colo reyndist hetja Frakka í kvöld er hann gerði sigurkörfuna þegar 8 sekúndur voru til leiksloka. Alain Koffi var þó stigahæstur í franska liðinu í kvöld með 14 stig og 6 fráköst en Nando De Colo gerði 6 stig í leiknum en hann leikur með Cholet í frönsku Pro A deildinni. Hjá Grikkjum var Vasilis Spanoulis atkvæðamestur með 16 stig.



