spot_img
HomeFréttirNaumt á Ásvöllum

Naumt á Ásvöllum

Haukar og KR mættust í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Iceland Express deild kvenna. Fyrir leikinn leiddi KR einvígið 1-0 og þegar flautað var til leiksloka voru þær röndóttu búnar að stilla Haukaliðinu upp við vegg því ekki náðu heimastúlkur að knýja fram sigur þrátt fyrir jafnan leik í seinni hálfleik.
 
Fjórir heppnir áhorfendur freistuðu gæfunnar í borgarskoti Iceland Express. Enginn náði að hitta og því fór engin ferð út að þessu sinni.
Byrjunarlið Hauka:
Heather Ezell, Kiki Lund, Helena Hólm, Telma Fjalarsdóttir og Ragna Margrét Brynjarsdóttir
 
Byrjunarlið KR:
Hildur Sigurðardóttir, Signý Hermannsdóttir, Unnur Tara Jónsdóttir, Margrét Kara Sturludóttir og Ragna Gróa Þorsteinsdóttir.
 
Hildur Sigurðardóttir opnaði leikinn og skoraði fyrstu körfu KR stúlkna. Haukar héldu til sóknar en sókn þeirra bar engan árangur og KR-ingar fengu góða körfu hinu meginn og komust í 0-4. Haukar minnkuðu muninn með körfu en þrjú stig frá KR kom þeim í 2-7. Haukar minnkuðu muninn en þá komu góðar körfur frá KR sem komst í 4-11. Ragna Margrét Brynjarsdóttir fékk snemma sína þriðju villu eða þegar að fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum.
 
Heather Ezell minnkaði muninn fyrir Hauka í 7-11. KR stúlkur voru komnar í bónus þegar aðeins fjórar mínútur og tíu sekúndur voru liðnar af leikhlutanum og klaufalegar villur Hauka gáfu þeim auðveldar körfur. Fátt gekk upp hjá Haukum gegn sterkri vörn KR sem pressaði fullan völl allan leikhlutann. Lið KR keyrði muninn í 7-18 en góðum körfum frá Heather Ezell minnkaði Haukaliðið muninn í 12-18.
Fréttaritara fannst halla frekar á Haukaliðið í fyrsta leikhluta og voru til að mynda bæði Ragna Margrét Brynjarsdóttir og Telma Fjalarsdóttir komnar með þrjár villur aður en fyrsta leikhluta lauk. KR vann leikhlutann 15-27.
 
Haukastelpur komu grimmari til leiks í öðrum leikhluta og að sama skapi var vörn KR stúlkna ekki jafn grimm. Sóknarleikur KR átti ekki mörg svör gegn svæðisvörn Hauka og smátt og smátt minnkuðu Haukar munin. Stór þristur frá Hether Ezell á sjöttu mínútu minnkaði muninn í tvö stig 29-31. Benedikt Guðmundsson þjálfari KR tók leikhlé til að skerpa á leik sinna kvenna og KR hélt til sóknar. Hildur Sigurðardóttir jók muninn fyrir KR en þriggja stiga karfa frá Söru Pálmadóttur breytti stöðinni í 32-33. Það sem eftir lifði leikhlutans var jafnt á öllum tölum. Haukar komust yfir þegar um hálf mínúta var eftir af fyrri hálfleik, 38-37, en leikhlutanum lauk með þriggja stiga forystu KR þar sem að Hildur Sigurðardóttir skorði úr sniðskoti og fékk skot að auki sem hún setti niður. Haukar áttu lokaskotið í leikhlutanum en það geigaði og KR með 38-41 forystu í hálfleik.
 
Heather Ezell var stigahæst Hauka í hálfleik með 16 stig en hjá KR var Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir með 10 stig.
 
Guðrún Gróa byrjaði seinni leikhlutann með körfu fyrir KR og kom þeim í fimm stiga forskot. Mikill hasar myndaðist undir körfu KR-inga þegar Haukar mættu til sóknar og fékk Hildur Sigurðardóttir tvær villur í röð og þ.a.l. sína fjórðu villu. Henni var umsvifalaust kippt út af af þjálfara KR og Guðrún Gróa fékk sína þriðju þegar hún braut í sömu sókn Hauka. Sókn Hauka bar ekki árangur og Margrét Kara Sturludóttir smellti niður þrist fyrir KR. Þegar aðeins tvær og hálf mínúta voru liðnar af leikhlutanum voru Ragna Margrét og Telma komnar með fjórar villur hjá Haukum og hjá KR voru þær Hildur Sig og Guðrún Gróá komnar með fjórar villur.
 
Leikurinn flaut ágætlega eftir að dómarar leiksins höfðu minnt rækilega á sig með nokkrum furðu dómum og varð munurinn aldrei það mikill að ekki væri leikur eins og það er kallað. KR náði átta stiga mun þegar rétt rúmar tvær mínútur voru eftir en þriggjastiga körfur frá Heather Ezell og Heiðrúnu Ösp minnkuðu muninn í tvö stig 53-55.
 
Heather Ezell fékk sína fjórðu villu og nú var bara tímaspursmál hvenær leikmenn færu að týnast útaf vellinum. Sara Pálmadóttir miðherji Hauka setti niður sinn þriðja þrist í leiknum rétt fyrir lok leikhlutans og minnkaði muninn í eitt stig 56-57 og þannig endaði hlutinn.
 
Fjórði náði ekki því flugi sem fréttaritari var að vonast eftir. KR leiddi allan leikhlutan með 6 stigum og var Haukaliðið alltaf að elta. Signý Hermannsdóttir setti niður þrist í stöðunni 62-68 og munur KR var því orðinn níu stig, 62-71, og þrjár mínútur eftir.
 
Leikur Hauka varð heldur klúðurslegur á lokakaflanum og benti fátt til þess að þær myndu ná að sigra leikinn. Þær tóku upp á því að brjóta til að koma KR á línuna og freista þess að stela leiknum með snöggum sóknum sem enduðu allar á þriggja stiga skoti.
KR kláraði leikinn með fjögra stiga sigri, 75-79, og leiðir því einvígið 2-0.
 
Dómarar leiksins þeir Kristinn Óskarsson og Jóhann G. voru nokkuð köflóttir og virtust á tímum gleyma því að áhorfendur komu ekki til að sjá snilldartakta á flautunni, sem urðu ekki margir, heldur liðin tvö, Hauka og KR, etja kappi í körfuknattleik.
 
Stigahæst hjá KR var Signý Hermannsdóttir stigahæst með 18 stig og 9 fráköst og Jenny Pfeiffer-Finora með 14 stig.
 
Hjá Haukum var Heather Ezell með 31 stig og 11 fráköst og Kiki Lund var með 16 stig.
 
Næsti leikur liðanna er á föstudaginn kl. 20:00 í DHL-Höllinni

Ljósmyndasafn eftir Tomasz Kolodziejski 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -