09:54
{mosimage}
(Steve Nash fór á kostum í nótt með Suns gegn Cavs)
Boston Celtics marði sigur á Toronto Raptors í NBA deildinni í nótt 98-95 eftir framlengdan leik þar sem Ray Allen reyndist hetja Boston þar sem hann gerði sigurkörfu leiksins. Um þrjár sekúndur voru til leiksloka þegar Allen setti niður þristinn mikilvæga og það reyndist ekki nægur tími fyrir Raptors til þess að knýja fram aðra framlengingu. Allen lauk leik með 33 stig í liði Celtics en TJ Ford var stigahæstur hjá Raptors með 32 stig og 5 stoðsendingar. Chris Bosh var með fína tvennu hjá Raptors, 19 stig og 10 fráköst og í liði Celtics gerði Kevin Garnett 23 stig, tók 13 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.
LA Clippers höfðu svo góðan 115-101 sigur á Seattle Supersonics þar sem Corey Magette gerði 27 stig fyrir Clippers en hjá Supersonics var nýliðinn Kevin Durant stigahæstur með 24 stig og 8 fráköst.
New York Knicks mörðu nauman heimasigur á Minnesota Timberwolves 97-93 í Madison Square Garden í nótt. Jamal Crawford gerði 24 stig og gaf 7 stoðsendingar hjá Knicks en Ryan Gomes var atvkæðamestur hjá Tiberwolves með 19 stig og 7 fráköst.
Charlotte Bobcats höfðu nauman 88-90 útisigur á Miami Heat í American Airlines Arena. Jason Richardson gerði 29 stig í liði Bobcats sem settu allt í lás á síðustu mínútu leiksins og stálu tveimur mikilvægum boltum á lokasekúndunum sem tryggðu Bobcats sigurinn. Udonis Haslem var stigahæstur hjá Miami með 18 stig og 10 fráköst en Shaquille O´Neal gerði 17 stig og tók 9 fráköst. Dwyane Wade lék ekki með Heat að þessu sinni.
Detroit Pistons lögðu Atlanta Hawks að velli í nótt 92-91 í Palace of Auburn Hills í Detroit. Mr. Bigshot eða Chaunse Billups gerði 22 stig og gaf 5 stoðsendingar í liði Pistons en Joe Johnson gerði 23 stig fyrir Hawks.
New Orleans Hornets gerðu góða ferð til Denver og höfðu þar 88-93 útisigur gegn Nuggets. Sex leikmenn í liði Hornets gerðu 10 stig í leiknum eða meira en þeirra mest gerði David West er hann sallaði niður 17 stigum. Allen Iverson gerði 23 stig og gaf 8 stoðsendingar í liði Nuggest og næstur honum var Carmelo Anthony með 20 stig. Marcus Camby var iðinn við kolann í teignum, gerði 8 stig og tók 21 frákast fyrir Nuggets.
LeBron James og félagar í Cleveland Cavaliers höfðu ekki erindi sem erfiði gegn Phoenix Suns í nótt. Heimamenn í Suns höfðu góðan 103-92 sigur þar sem Steve Nash fór á kostum með 30 stig, 10 stoðsendingar og 4 fráköst. Hjá Cavs var LeBron venju samkvæmt stigahæstur með 27 stig, 8 stoðsendingar og 5 fráköst.
Kobe Bryant gerði 33 stig og tók 5 fráköst þegar LA Lakers lagði Utah Jazz 119-109 í Staples Center í Los Angeles í nótt. Deron Williams var stigahæstur hjá Jazz með 26 stig en Carlos Boozer gerði 23 stig, tók 12 fráköst og gaf 6 stoðsendingar í liði Jazz.
Mynd/Photo: AP



