Það var hátíðarstemming sem blasti við leikmönnum þegar þær valhoppuðu inn á völlinn í þriðja leik undanúrslita í Dominosdeild kvenna, umgjörðin til fyrirmyndar og he for she í algleymingi hjá Hólmurum. Þó svo að sólin skíni og sumar sé í lofti þá virtust Valskonur ekki vera reiðubúnar að fara í sumarfrí.
Valur byrjaði leikinn frábærlega og komu þær heimakonum á óvart með frábærri vörn og miklu boltaflæði í sókninni. Það þurfti fimm mínútur til að vekja heimakonur af værum svefni. Þegar Hólmarar fengu tvo þrista frá Öldu Leif og góðar körfur frá Bryndísi var komin ró yfir leik þeirra og þær komnar með vald á leiknum. Fyrsti leikhlutinn endar 19 – 15 fyrir Snæfell og þær komnar í gírinn.
Í byrjun annars leikhluta virtist Snæfell ætla að sigla Val í kaf, það var Hallveig alls ekki tilbúin í. Hún setti tvo þrista og Dagbjört Dögg bætti einum í viðbót fyrir Val, Dagbjört var í byrjunarliði Vals og stóð sig mjög vel í leiknum. Leikurinn því í járnum áfram. Fjölmargir áhorfendur frá báðum liðum studdu vel við bakið á sínum liðum á þessum kafla þó svo að vörnin hafi verið í fyrirrúmi og sóknin stóð aðeins á sér. Það er ekki alltaf dans á rósum. Snæfell endaði hálfleikinn með meiri krafti og fengu nokkur hraðaupphlaup í lokinn og fóru inn í hálfleikinn með átta stiga forystu (39 – 31).
Bryndís og Alda Leif voru að spila frábærlega fyrir Snæfell í fyrri hálfleiknum en sterkt byrjunarlið Vals var að skila sínu verki mjög vel sömuleiðis.
Þriðji leikhlutinn byrjaði á svipuðum varnarleik, Snæfell voru að taka erfið skot og þau opnu sem þær fengu duttu ekki. Valur hélt áfram með boltaflæði en skotin geiguðu einnig. Þegar fimm mínútur voru liðnar af þriðja voru liðin bún að skora 6 stig saman. Þó skiptu liðin þeim óbróðurlega á milli sín en Valur hafði skorað 4 og Snæfell 2. Á þessum tímapunkti breyttist leikurinn vegna þess að Karisma fékk sína þriðju villu og fór á tréverkið, Valsarar spýttu í lófana og jöfnuðu leikinn með tveimur þristum. Alda Leif og Haiden voru ekki á sama máli og skelltu í sex stig í röð áður en Bergþóra smellti þrist langt fyrir utan. Leikurinn breyttist í einhvers konar skotsýningu í lok þriðja sem endaði með risa þrist hjá Sóllilju.
Þriggja stiga munur var þegar liðin löbbuðu inn í fjórða leikhlutann. Snæfell skoruðu fyrstu körfu leikhlutans mjög fljótlega en svo tók vörnin við. Valur skoraði ekki fyrr en eftir þrjár mínútur. Leikurinn harðnaði verulega og voru liðin að þröngva andstæðinga sína í erfið skot hvað eftir annað. Snæfell var að fá hraðaupphlaup á þessum mínútum en flýttu sér oft um of þannig þær náðu ekki að bæta. Í fjórða leikhluta fóru Valskonur bara í gegnum Karisma og gekk það mjög vel. Hún skoraði eða bjó til körfur fyrir Val þegar henni hentaði og var hún því með sóknarleik Vals á herðunum og líkaði það vel. Valur hélt alltaf í Snæfell og minnkaði bilið allt fram á síðustu andartök leiksins. Þegar þrjár sekúndur voru eftir af leiknum setur Bergþóra Holton einn af stærri þristum hennar á ferlinum og jafnar leikinn. Húsið gjörsamlega að umturnast vegna spennu. Snæfell fær boltann og Haiden nær erfiðu hlaupandi þriggja stiga skoti þegar tíminn klárast, en dramatíkin var ekki búin. Haiden fær á sig óíþróttamannslega villu þegar leiktíminn er liðinn þegar hún og Ragnheiður Benónýsdóttir eru að kljást á gólfinu. Snæfellingar stálheppnir að leiktíminn var runninn út og í raun var framlengingin það sem við tók. Valur byrjaði því framlenginguna á tveimur vítaskotum og fengu þær boltann einnig.
Leikmenn beggja liða greinilega orðnir þreyttir því rosaleg orka hefur farið í þessa þrjá leiki sem spilaðir hafa verið á milli þessara liða. Stigin hlóðust því ekki upp í framlengingunni og verður að segjast að hvorugt liðið hafði kraft í að klára sóknirnar. Bæði lið skoruðu fimm stig og þurfti því að framlengja aftur. Hitinn að hækka í íþróttahúsinu í Stykkishólmi, stemmningin var svakalega og áhorfendur löngu staðnir upp, stöð 2 sport meir að segja búnir að skipta yfir á leikinn á þessum tímapunkti.
Í stöðunni 71 – 71 kemur Sara Diljá inn á völlinn fyrir Snæfell og átti hún eftir að reynast gamla félaginu sínu illa. Valur ætti að þekkja hana betur en hún var skilin eftir í horninu á ögur stundu og gerði ekkert annað en að henda boltanum upp vitandi það að hann færi beint ofan í, eins og hann gerði. Þegar þarna kom við sögu voru Snæfellskonur með fjögurra stiga forystu og 19 sekúndur eftir. Sá munur reyndist of mikill og kóronaði Alda Leif Jónsdóttir leik sinn með enn einum stolna boltanum á ferlinum, þvílíkar hendur sem hún er með. Valur þurfti að elta og reyna við stóru skotin sem geiguðu og Snæfell komnar í úrslit þriðja árið í röð.
Valskonur mega ganga súrar en með höfuðið hátt uppi út úr húsinu. Frábært lið sem gerði seríuna virkilega skemmtilega og spennandi. Tilfinningin í lok 2. Framlengingar var að staðan væri 2 – 2 og um oddaleik væri að ræða. Stórt hrós fá Hólmarar fyrir mætinguna í kvöld og stemmningin ógleymanleg, þó svo að myndatökumaður karfan.is hafa fundið halla örlítið á 80’s tónlistina.
Snæfell fær auka daga til að hlaða batteríin á meðan Grindavík og Haukar berjast um laust sæti í úrslitum Dominosdeildar kvenna. Valur kveðjur að sinni en þær munu minna á sig í framtíðinni.
Myndasafn – Sumarliði Ásgeirsson
Umfjöllun – GS



