spot_img
HomeFréttirNaglbítur í Grafarvoginum endaði með sigri Fjölnis á Þór

Naglbítur í Grafarvoginum endaði með sigri Fjölnis á Þór

Enn einn toppslagurinn í Grafarvogi var leikinn í kvöld. Fjölnismenn nýbúnir að leggja toppliðið Tindastóls og fengu nú liðið í öðru sæti, Þór Akureyri, í heimsókn. Með sigri gæti Fjölnir komist upp yfir Hött í 3. sætið.
 
Fyrsti hluti var mjög kaflaskiptur og liðin skiptust á körfum í upphafi. Þór Ak spilaði svæði lengst af sem hentaði ágætlega þar sem Fjölnismenn voru að hitta frekar illa utan að velli. 
 
Slök hittni elti Fjölnismenn yfir í annan hluta. Þórsarar nýttu sér það til hins ýtrasta og náðu 9 stiga forystu þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þó hófst 9-0 atlaga heimamanna sem endaði með því að Davíð Ingi Bustion haltraði yfir völlinn eftir samstuð í teig Fjölnis, fékk boltann við ofanverðan teig Þórs og smellti einu rándýru stökkskoti til að jafna leikinn rétt fyrir hálfleik.
 
Seinni hálfleikur hófst á því að Daron Simms og Jarrell Crayton skiptust á körfum. Fjölnismenn fóru að hitta fyrir utan og leiddu megnið af leikhlutanum. Hrottaleg Alley-Oop troðsla frá Crayton rétt fyrir lok þriðja hluta hristi Þórsara í gang og hlutinn endaði 61-62 fyrir Þór.
 
Í fjórða hluta byrjuðu Fjölnismenn með sömu ákefð og í fjórða hluta leiksins gegn Tindastóli á föstudaginn og setti Davíð Ingi Bustion mark sitt á leikinn með baráttu og að keyra á körfuna. 5-0 sirpa frá Fjölni endaði með troðslu frá Garðari Sveinbjörnssyni og Þór tók leikhlé. Að því loknu tók gamla KR brýnið, Sveinn Blöndal við stjórninni og rak sína menn í Þór áfram með vörn og öguðum sóknarleik. Vörnin hjá Þór kom þeim aftur inn í leikinn og í sókninni fóru þeir að senda boltann inn í teiginn til Crayton með góðum árangri. 
 
Brösóttur sóknarleikur Fjölnis á þessum tíma var ekki skilaði ekki miklu í lok venjulegs leiktíma. Þegar um 10 sekúndur voru eftir af leiknum í stöðunni 80-81 fyrir Þór, stal Sindri Davíðsson boltanum af Emil Jóhannssyni og kom honum á Crayton sem Emils svo braut á. Bæði lið voru á þessum tíma í skotrétti. Crayton fer á línuna og hefði getað gulltryggt sigurinn fyrir Þór, en hittir úr hvorugu vítinu. Simms nær frákastinu en Sindri, sem fór frá því að vera hetja Þórsara til þess að enda sem skúrkur á örfáum sekúndum, gerði sér lítið fyrir og braut klaufalega á honum.
 
Simms setti niður annað vítið og jafnar leikinn. Þórsarar tóku leikhlé til að ráða ráðum sínum en töpuðu boltanum klaufalega eftir stutta og hálfdapra sókn. Róbert Sigurðsson nær af þriggja stiga skoti sem hann setur niður en Leifur Garðarson, dómari leiksins flautar hana af þar sem leiktími var liðinn og framlenging á næsta leiti.
 
Fjölnismenn komur grimmir til leiks í framlengingunni sem hófst með hressilegri troðslu frá Simms. Heimamenn hittu mjög vel í framlengingunni en Þórsarar voru ekki að finna miðið. Framlengingin endaði með 11 stigum heimamanna gegn aðeins 5 frá gestunum og annar sigur Fjölnismanna á efstu tveimur liðum deildarinnar staðreynd.
 
Fjölnir náði þar með þriðja sætinu af Hetti og blandar sér í toppbaráttuna með Þór og Tindastóli.
 
Daron Simms átti frábæran leik fyrir Fjölni með 28 stig og 11 fráköst. Davíð Ingi Bustion kom með vítamínsprautu af bekknum með 16 stig og 7 fráköst. Nautið Ólafur Torfason skoraði ekki mikið en hann reif niður hvorki meira né minna en 18 fráköst í leiknum og var næstefstur á eftir Simms í framlagsstigum með 25. Emil Þór var ekki að hitta vel en hann átti mikilvægar körfur í lokin.  Páll Fannar var lítið með vegna meiðsla sem hann varð fyrir á föstudaginn gegn Stólunum.
 
Hjá Þór var Jarrell Crayton atkvæðamestur með 27 stig, 13 fráköst, 4 stolna bolta og 5 varin skot. Skaut 12/17 utan að velli og 5 af fráköstunum voru í sókn. Ólafur Aron Ingvason átti fínan leik með 20 stig og 10 stoðsendingar en var að hitta illa fyrir utan bogann. Gamli flekinn Sveinn Blöndal átti mikilvæga innkomu fyrir sitt lið og setti 13 stig að viðbættum 4 fráköstum og 4 vörðum skotum.
 
Leikurinn var mjög vel dæmdur enda ekki við öðru að búast frá King Leifi Garðarssyni.
 
Fréttir
- Auglýsing -