Ísfirðingar tóku á móti Þór frá Þorlákshöfn á Ísjakanum á Ísafirði. Fyrir leikinn hafði KFÍ tapað öllum þremur leikjum sínum í deildinni, þar af naumlega á móti Njarðvík og Skallagrím, á meðan Þór hafði farið með öruggan sigur í báðum sínum leikjum við Snæfell og Stjörnunni.
Hjá Þórsurum voru allir lykilmenn heilir og á svæðinu og Ísfirðingar voru einnig mættir með fullskipað lið. Þeir höfðu þó misst Guðmund Jóhann Guðmundsson í meiðsli, en hann tognaði illa eftir skriðtæklingu í leik liðsins við Skallagrím, en á móti kom þá var gamla brýnið Pance Ilievski mættur aftur í búning í fyrsta sinn síðan í fyrsta leik KFÍ í Lengjubikarnum.
Byrjunarlið KFÍ: Mirko Stefán Virijevic, Ágúst Angatýsson, Jón Hrafn Baldvinsson, Leó Sigurðsson og Jason Smith
Byrjunarlið Þórs: Raggi Nat, Mike Cook, Nemanja Sovic, Baldur Ragnarsson og Tómas Tómasson
Bullandi jafnræði var með liðunum allan fyrsta leikhluta. Ragnar Nat og Nemanja áttu í miklum vandræðum með Mirkó Stefán sem virtist skora af vild en hann setti 12 stig í leikhlutanum fyrir KFÍ sem leiddi í lok hans 21-18. Ragnar Nat og Baldur Ragnarsson komust báðir í villuvandræði í fyrsta leikhluta og settust á bekkinn með 3 villur hvor fyrir lok hans.
KFÍ mættu virkilega sterkir til leiks í öðrum leikhluta og náðu mest 12 stiga forustu, 41-29. Munaði þar miklu um frábæran leik Mirko auk þess sem nýliðinn stóri og stæðilegi, Jóhann Jakob Friðriksson, átti góðan sprett og reif niður 6 fráköst og olli Nemanja Sovic miklum vandræðum í vörninni en Sovic hitti einungis úr 2 af 6 skotum sínum á móti honum.
Þórsarar voru þó ekkert á þeim buxunum að fara að gefast upp. Raggi Nat var rifinn af bekknum um það leiti sem Mirko fór að hvíla og í kjölfarið skoruðu Þórsarar 17 stig á móti 3 stigum heimamanna og fóru gestirnir því með 44-46 forustu í búningsklefann.
Hjá Þór var Cook með 19 stig og 7 fráköst og Nemanja Sovic með 15 stig og 9 fráköst.
Hjá KFÍ var Mirko Stefán með 18 stig og 8 fráköst en Jason Smith var kominn með 12 stig.
Í seinni hálfleik var Mirko Stefán snöggur að koma sér í villuvandræði en hann krækti sér í 2 villur á fyrstu tveimur mínútum þriðja leikhluta og var því kominn með 4 alls. Birgir Örn Birgisson tók þó áhættuna á að hann fengi ekki aðra og hélt honum inná.
Nemanja Sovic vaknaði aldeilis til lífsins í þriðja leikhluta og fór að raða niður körfunum.en hann setti alls 12 stig í leikhlutanum. Mike Cook var einnig iðinn í stigaskoruninni en þökk sé þrist frá honum um leið og klukkan gall þá fóru Þórsarar með sjö stiga forustu, 70-77, inn í fjórða leikhlutann.
Loka leikhlutinn var svo algjör naglbítur. KFÍ vann upp muninn á tveimur mínútum og eftir það skiptust liðin á að leiða. Þegar 19 sekúndur eru eftir þá kemur Ágúst Angatýsson KFÍ þremur stigum yfir með erfiðu skotu undir körfunni en Sovic geysist strax upp völlinn og jafnar leikinn með þrist 6 sekúndum seinna. KFÍ heldur í lokasóknina en Mike Cook kemst inn í sendingu þeirra. Hann geysist upp völlinn og setur niður stökkskot þegar einungis ein sekúnda er eftir. KFÍ reynir að fiska villu á Þórsara í kjölfarið en dómararnir bíta ekki á og því vinna gestirnir naumann 98-100 sigur.
Hjá Þór voru Mike Cook (37 stig) og Nemanja Sovic (36 stig) allt í öllu en þeir skoruðu samtals 73 af 100 stigum gestanna.
Hjá KFÍ var Jason Smith stigahæstur með 33 stig, Mirko Stefán skoraði 24 stig og tók 14 fráköst, Ágúst Angatýsson var með 14 stig og 8 fráköst og Hraunar Karl Guðmundsson setti niður 12 stig.
Umfjöllun/ SS
Mynd – www.hafnarfrettir.is – Mike Cook gerði 37 stig og tók 10 fráköst hjá Þór í kvöld.



