spot_img
HomeFréttirNaglarnir sigruðu Hamarinn

Naglarnir sigruðu Hamarinn

Liðin í 5. og 6. sæti 1. deildar, Hamar frá Hveragerði og ÍA frá Skipaskaga mættust í býflugnabúinu við Vesturgötu á Akranesi.  Liðin voru jöfn að stigum en Hamarsmenn sátu í síðasta úrslitakeppnissætinu þar sem þeir sigruðu fyrri leik liðanna fyrr á tímabilinu.  Þessi lið hafa háð margar rimmurnar síðustu á en liðin hafa mæst alls 17 sinnum síðan tímabilið 2011/2012 hóst, í deild, úrslitakeppni og bikar og höfðu Hamarsmenn sigrað 12 sinnum á meðan ÍA hafði unnið 5.  Meðalskorið úr leikjunum 17 var 86-81 fyrir Hamar þannig að tölfræðin var með þeim fyrir leikinn.

ÍA setti fyrstu körfuna í leiknum en Hamar jafnaði strax metin.  Næstu mínútur gengu eins, ÍA komst yfir en Hamar jafnaði.  Um miðbik fyrsta leikhluta komust svo Hvergerðingar yfir með 3ja stiga körfu en Skagamenn svöruðu með 5 stigum í röð.  Heimamenn leiddu svo með einnar 2ja stiga körfu mun að loknum 1. leikhluta, 19-17. Varnirnar að halda vel enda mikið undir.

Í öðrum leikhluta var greinilegt að bæði lið ætluðu að bæta í frá fyrri leikhluta, sóknarleikurinn var í fyrirrúmi á meðan varnirnar létu unda á móti.  Liðin brutu nokkuð, tóku alls 23 víti í leikhlutanum sem þýður að það voru tekin 2,3 vítaskot per mínútu í fjórðungnum.  Þegar leikhlutinn var allur hafði ÍA sett 32 stig á móti 29 stigum Hamars og hálfleikstölur því 51-46 fyrir ÍA.

Það var engu líkara en heimamenn hafi ákveðið í hálfleik að kveikja í þræði flugeldasýningar þrátt fyrir að áramótin séu að baki, mættu á fullu í seinnihálfleikinn, byrjuðu fjórðunginn á 7-0 áður en Hamarsmenn settu fyrstu körfu sína í seinni hálfleik en þá settu Skagamenn 6 næstu stig og staðan allt í einu orðin 64-48.  Næstu mínútur skoruðu skagamenn 2 körfur á móti hverri einni körfu gestanna, náðu mest 20 stiga forskoti í stöðunni 72-52 en þá vöknuðu Hamarsmenn, fóru að berja frá sér og unnu lokakafla fjórðungsins 2-9 og staðan fyrir loka leikhlutann 74-61 og varnarleikur ÍA gríðarlega góður.

Hamar var ekki á því að leifa ÍA eitthvað að fara að trúa því að vörnin þeirra væri virkilega svona góð, settu fyrstu körfu fjórðunsins en þá ákváðu skagamenn að sýna þeim að þeir geti líka spilað árangursríkar sóknir og svöruðu með þrist.  Aftur klikkaði vörn ÍA, nú með broti og tveimur vítaskotum sem bæði fóru niður.  Hvernig svarar maður því, skagamenn ákváðu að gera það með öðrum þrist.  Hvergerðingar gátu ekki verið minni menn heldur, settu niður þrist á móti og 10 stiga munur 80-70.  Síðustu mínútur fjórðungsins voru skagamenn staðráðnir í að klára þessa rimmu, ekki bara þennan leik heldur að ná innbirðisviðureigninni á sitt band ef til þess kæmi að liðin verði jöfn að stigum í loka deildarinnar enda liðin í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninn.  Þar sem Hamar keyrði naglna á kaf í fyrri leiknum 98-86 urðu skagamenn að vinna með meira en 12 stigum.  Þegar rétt rúmar 5 sekúntur voru eftir af leiknum settu skagamenn niður mikilvægt sniðskot og komu stöðunni í 102-87 og munurinn orðinn 15 stig.  Hamarsmenn voru greinilega meðvitaðir um fyrri leikinn, tóku strax leikhlé, sem kom kannski einhverjum á óvart, en planið var að setja niður einn þrist í loka skotinu.  Það mistókst svo 15 stiga sigur ÍA staðreynd og gríðarlega mikilvægur sigur í höfn.  Greinulegt að Hamarsmenn söknuðu þeirra leikmanna sem ekki gátu spilað og spiluðu allir byrjunarliðs menn þeirra meira en 30 mín. á meðan 7 leikmenn heimamanna spiluðu 17 mín. eða meira.

 

Hjá ÍA var Sean Tate virkilega góður, setti 27 stig, þar af 7 þriggjastiga körfur, bætti 8 stoðsendingum og 5 stolnum boltum við tölfræðina sína.  Fannar Helgason var flottur með 23 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar.  Jón Orri setti enn eina tvennuna og gældi við þrennuna með 18 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar.  Ekki má gleyma Áskeli Jónssyni sem var með 15 stig og 7 stoðsendingar.

Hjá Hamri var Samuel Prescott JR. flottur með 32 stig og 11 fráköst, Þorsteinn Gunnlaugsson var á tvennuvagninum með Jóni Orra með 20 stig og 11 fráköst, Sigurður Orri Hafþórsson setti 16 stig og Kristinn Ólafsson skilaði 15 stigum 4 fráköstum og 5 stoðsendingum.

 

Nánari tölfræði úr leiknum má nálgast hér http://www.kki.is/widgets_game.asp?league_id=191&season_id=90967&game_id=3091063#mbt:6-400$t&0=1

Mynd: Jónas H. Ottósson af Sean Tate sem fór mikinn í kvöld.

Texti:Hannibal

Fréttir
- Auglýsing -