Í kvöld lauk 27 ára langri eyðimerkurgöngu Hauka í körfuknattleik, Hafnfirðingar unnu þá í fyrsta sinn leik á heimavelli Keflavíkur í úrslitakeppninni síðan árið 1988. Haukar tryggðu sér oddaleik með góðri frammistöðu í fjórða og síðasta leikhluta, lokatölur 73-80. Enn einn stórleikurinn í úrslitakeppninni að baki og að hugsa sér, veislan er rétt svo hafin!
Það kom vissulega á óvart hve daprir Keflvíkingar voru gegn svæðisvörn Hauka í fjórða leikhluta enda varnarafbrigði sem þeir hafa gripið til sjálfir um árabil og maður hefði haldið að þeir myndu hakka vörnina í sig en allt kom fyrir ekki þetta kvöldið. Eins kom það á óvart en á ekki að gera það að Haukur Óskarsson skyldi voga sér að sleppa ellefta þristinum á loft í kvöld þegar hann var 1-10 í þristum. Þessi ellefti fór reyndar niður og kom Haukum í 71-73 á lokasprettinum svo honum var fyrirgefinn jafnvel þristurinn frá fyrri hálfleik sem hitti ekki neitt nema parketið að lokum.
Það gengur ýmislegt á í úrslitakeppninni sem eru oft fáséðari hlutir í deildarkeppninni, sem dæmi var Valur Orri Valsson frákastahæstur lengi vel í fyrsta leikhluta en stóru strákarnir tóku óhjákvæmilega þann tölfræðiþátt yfir. Í fyrsta leikhluta var blásið til smá skotkeppni, níu stig í röð frá Haukum fyrir utan þriggja og það var svo mikill völlur á þeim að jafnvel Francis leyfði sér langt skot úr teignum! Maður sem berst fyrir lífi sínu á vítalínunni að sleppa sér í fjörinu. Haukar leiddu 20-22 eftir fyrsta leikhluta.
Usher bauð upp á ein bestu tilþrif leiksins í upphafi annars leihkluta þegar hann tróð með látum gegn Haukavörninni og stemmningin var rísandi Keflavíkurmegin. Alex Francis var of lengi utan vallar í öðrum leikhluta, Keflvíkingar léku við hvurn sinn fingur í hans fjarveru og heimamenn í stúkunni tóku vel undir þegar Valur Orri setti þrist og jók muninn í 44-35 en Kristinn Marinósson átti lokaorðið í fyrri hálfleik fyrir Hauka með stökkskot í teignum og liðin héldu inn í hálfleik í stöðunni 44-37.
Skotnýtin liðanna í fyrri hálfleik
Keflavík: Tveggja 56,5% – þriggja 28,6% og víti 85,7%
Haukar: Tveggja 46,2% – þriggja 30,8% og víti 33,3%
Þriðji leikhluti var hnífjafn, nokkur harka farin að færast í leikinn og Keflvíkingar við stýrið. Á köflum virtist sem ótti Hauka við að fara í sumarfrí væri meiri en ákefð þeirra í að vinna leikinn og Keflavík leiddi 62-55 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Hefði einhver hvíslað að undirrituðum að Keflavík yrði í stakast basli með svæðisvörn Hauka í fjórða leikhluta hefði ég hlegið og sagt: „Farðu út, þeir fundu upp þetta varnarafbrigði.“ En þarna kom það, hökt og ekkert vildi niður og með hverri mínútunni óx Haukum ásmegin.
Kristinn Marinósson átti tvær rosalegar körfur, fyrst minnkaði hann muninn í 65-64 með þrist. Haukur Óskarsson átti ekki síður stóran þrist þegar hann kom Haukum í 71-73 en í næstu Haukasókn kom Kristinn gestunum í 73-76 með öðrum þrist, alveg svellkaldur kallinn. Keflvíkingar fóru illa að ráði sínu og köstuðu boltanum frá sér í næstu sókn og þá var eftirleikurinn auðveldur fyrir gestina sem kláruðu verkið 73-80.
Skírdagur verður því alsettur tveimur oddaleikjum en Haukar og Keflavík útkljá sitt einvígi í Schenkerhöllinni þar sem sigurliðið mun arka áfram inn í undanúrslit en hitt taka poka sinn og halda í sumarfrí.
Lykil-maður leiksins: Kristinn Marinósson
Umfjöllun/ [email protected]



