Stjarnan lagði Keflavík í kvöld í Garðabæ í fimmtu umferð Bónus deildar kvenna, 78-73.
Eftir leikinn er Keflavík í 4.-6. sæti deildarinnar með þrjá sigra á meðan Stjarnan er í 8.-9. sætinu með einn sigur.
Segja má að heimakonur í Stjörnunni hafi verið í bílstjórasætinu lengst af í leik kvöldsins. Mest fer forysta þeirra í 13 stig í upphafi seinni hálfleiksins, en gestirnir úr Keflavík ná að koma til baka í þeim fjórða og gera leikinn virkilega spennandi á lokamínútunum.
Síðustu tvær mínútur leiksins heldur vörn Stjörnunnar gífurlega vel og fá þær stórar körfur á hinum enda vallarins frá Berglindi Kötlu Hlynsdóttur, Shaiquel Mcgruder og Evu Wium Elíasdóttur sem tryggja þeim sterkan fimm stiga, fyrsta, sigur tímabilsins, 78-73.
Stigahæstar fyrir Keflavík í leiknum voru Keishana Washington með 18 stig og Sara Rún Hinriksdóttir með 16 stig.
Fyrir Stjörnuna var stigahæst Shaiquel Mcgruder með 27 stig og henni næst var Eva Wium Elíasdóttir með 18 stig.



