spot_img
HomeFréttirNá ÍR og Keflavík að knýja fram oddaleiki?

Ná ÍR og Keflavík að knýja fram oddaleiki?

Þrír þýðingarmiklir leikir fara fram á Íslandsmótinu í kvöld. Þrjú lið geta endað í sumarfríi í kvöld eða tryggt oddaleik á sínum heimavelli með sigri. 

 

Í Dominos deild kvenna er stórleikur í Valshöll. Íslands- og bikarmeistarar Keflavíkur gætu farið í sumarfrí í kvöld fari svo að þær tap fyrir Val. Staðan í einvíginu er 2-1 eftir að Keflavík minnkaði muninn í síðasta leik. Liðin hafa átt marga æsispennandi leiki í allan vetur og því allar líkur á þrusuleik í Valshöll þar sem Valur getur tryggt sér í úrslitaeinvígið gegn Haukum með sigri. 

 

Tindstóll getur tryggt sér sæti í úrslitaeinvígi Dominos deildar karla með sigri á ÍR í Síkinu í kvöld. ÍRingar eiga góðar minningar þaðan í vetur en liðið hefur unnið tvo af þremur leikum liðanna á Sauðárkróki á tímabilinu. Eini sigur Tindastóls gegn ÍR í Síkinu kom í bikarkeppninni. Staðan er 2-1 eftir að Tindastóll vann í Breiðaholti síðasta miðvikudag. Baráttan er mikil í einvíginu og ekkert verður gefið eftir í þessum leik sem er hreinlega uppá líf eða dauða í augum þessara liða. 

 

Hamri tókst að fresta sigurhátíð Breiðabliks með sigri í Frystikistunni síðasta miðvikudag. Liðin mætast í úrslitaeinvígi 1. deildar karla um hvort liðið fylgir Skallagrím uppí Dominos deildina að ári. Allir leikirnir hafa verið spennandi og ráðist á lokasóknunum. Breiðablik er enn 2-1 yfir og þarf því bara einn sigur til að tryggja sigurinn. Fari svo að Hamar vinni leik kvöldsins verður hreinn úrslitaleikur um sæti í Dominos deildinni næsta mánudag. 

 

Nánar verður fjallað um alla leiki kvöldsins á Karfan.is í kvöld. 

 

Leikir dagsins: 

 

Dominos deild karla:

Tindastóll – ÍR kl 19:15 í beinni á Stöð 2 Sport 

 

Dominos deild kvenna:

Valur – Keflavík kl 19:15 í beinni á Stöð 2 Sport 4
 

1. deild karla:

Breiðablik – Hamar kl 19:15 í beinni á Facebook síðu Körfuknattleiksdeildar Breiðabliks

 

Fréttir
- Auglýsing -