Gunnar Ólafsson og St. Francis Terriers sigruðu sinn þriðja leik í vetur, nú á heimavelli gegn Mount St. Vincent 90-72. Gunnar skoraði 3 stig og setti niður 1 af þremur þriggja stiga skotum sínum.
Karfan.is sló á þráðinn hjá Gunnari eftir síðasta leik og heyrði aðeins í honum um hvernig tímabilið er að spilast.
“Ég hef ekki miklar áhyggjur af tímabilinu. Vantar bara örlítið upp á hjá okkur. Erum að tapa flestum leikjunum með örfáum stigum,” sagði Gunnar en hann skoraði 2 stig í tapleik St. Francis gegn New Jersey Institute of Technology síðast.
“Ég er ekkert búinn að vera spila neitt sérstaklega. Þarf að rífa mig í gang. En það er mikil samkeppni í þessu liði. Mikið af leikmönnum á síðasta ári,” en því má kannski bæta við að það er töluvert ólíkt því sem Elvar og Martin eru að venjast hjá LIU Brooklyn þar sem megnið af liðinu eru leikmenn á fyrsta ári. “Ég þarf bara að vera þolinmóður og nýta tækifærin mín betur.”



