22:52:29
Miðherjinn Alonzo Mourning hefur ákveðið að láta ekki verða af endurkomu í NBA deildina. Vangaveltur hafa verið um hvort hann ætti eftir að snúa aftur og klára tímabilið með Miami Heat, rúmlega ári eftir að hann neyddist til að hætta vegna alvarlegra fótmeiðsla, en Mourning sagði á blaðamannafundi í dag að hann vildi frekar láta staðar numið á meðan hann hefur heilsu til að gera það sjálfviljugur.
Nánar hér að neðan… Mourning er tvímælalaust dáðasti leikmaður í sögu Miami Heat, en hann eyddi þar obbanum af sínum ferli og var varamaður Shaquille O‘Neal þegar liðið tryggði sér NBA-titilinn árið 2006.
Mourning verður brátt 39 ára gamall en verður helst minnst sem eins mesta baráttujaxls í NBA af sinni kynslóð og ekki síður sem eins besta varnarmanns frá upphafi enda var hann tvisvar valinn varnarmaður ársins. Hans verður einnig minnst fyrir að rísa aftur upp úr alvarlegum veikindum þar sem hann þurfti að fá ígrætt nýra árið 2003.
„Þegar þér er eins annt um eitthvað eins mér er um körfubolta er erfitt að sleppa af því hendinni, en á mínum aldri finnst mér sem ég hafi skilað öllu sem ég líkamlega get í þessa íþrótt og þetta hefur verið frábær vegferð.
Þetta er ekki sorgardagur heldur ber að fagna honum, því ég er viss um að milljónir manna hefðu viljað feta í mín spor. Góðu stundirnar og þær erfiðu gerðu ferðalagið bara enn ánægjulegra.“
Á 15 tímabilum í NBA skoraði Mourning 17,1 stig að meðaltali í leik, tók 8,5 fráköst og varði 2,8 skot í leik.
Ferill Mournings
ÞJ



