Nigel Moore er farinn af landi brott og mun ljúka leiktíðinni með Vichy í frönsku NM1 deildinni en hún er þriðja efsta deildin í Frakklandi. Þetta hefur Örvar Þór Kristjánsson þjálfari ÍR-inga staðfest við Karfan.is í dag.
Vichy er um þessar mundir í 5. sæti í NM1 deildinni og úrslitakeppnin handan við hornið. Moore sem hafði afar jákvæð áhrif í Hertz-Hellinum eftir að hann gekk í raðir ÍR var með 16,8 stig, 10,3 fráköst og 3,5 stoðsendingar að meðaltali í leik hér á Íslandi en hann, eins og kunnugt er, hóf tímabilið með Njarðvíkingum og lauk því með ÍR.
Hvort Moore leiki aftur á Íslandi skal ósagt látið en Örvar Þór hefur þegar lagt samning á borðið fyrir Nigel og hefur leikmaðurinn til 1. júlí til að ganga frá sínum málum við ÍR.
Moore verður þó ekki fyrsti leikmaðurinn úr íslenska boltanum sem gengur í raðir Vichy því þar kom Pavel Ermolinskij við sögu þegar hans atvinnumannaferill gekk í garð tímabilið 2003-2004.



