spot_img
HomeFréttirMöguleikar Íslands á farmiða á lokamót HM 2023

Möguleikar Íslands á farmiða á lokamót HM 2023

Eftir þennan nóvemberglugga sem kláraðist hjá Íslandi og liðunum í L riðil er ljóst að staðan er ansi snúin fyrir lokagluggann sem fram fer með tveimur leikjum í febrúar á næsta ári.

Með sigri í glugganum er Ítalía nú örugg á lokamótið, ekki er ólíklegt að Spánn leggji Holland seinna í kvöld og tryggi sig þar með einnig áfram, en eins og staðan er núna munu Georgía, Ísland og Úkraína öll berjast um þriðja og síðasta sæti riðilsins.

Leikir febrúargluggans

Ísland: Spánn (heima) og Georgía (úti)

Georgía: Holland (úti) og Ísland (heima)

Úkraína: Ítalía (úti) og Holland (heima)

Fyrir þessa leiki eru Georgía og Ísland jöfn að stigum í 3.-4. sæti riðilsins þar sem að Georgía er skör ofar vegna innbyrðisviðureignar. Úkraína er svo einum sigurleik fyrir aftan liðin í 5. sætinu.

Fyrir utan seinni leik Íslands og Georgíu má segja að fyrir Ísland sé viðureign Ítalíu og Úkraínu í seinni glugganum mikilvægust. Fari svo að Úkraína vinni þann leik, þá þarf Ísland eiginlega að vinna Spán sama dag til þess að eiga raunhæfa möguleika á að komast áfram. Fari hinsvegar svo að Úkraína tapi leiknum á Ítalíu, nægir Íslandi að vinna Georgíu úti með meira en fjórum stigum til þess að tryggja sig á lokamótið, óháð úrslitum leiksins gegn Spáni.

Þannig að það eru ágætis líkur á að Ísland þurfi aðeins einn plús fjögurra stiga sigur gegn Georgíu í febrúar til þess að tryggja sig á lokamótið, en það er háð því að Úkraína nái ekki að vinna Ítalíu í fyrri leik sínum í glugganum.

Vinni Úkraína hinsvegar Ítalíu á sama tíma og Ísland myndi tapa fyrir Spáni, yrðu liðin þjú mögulega jöfn að stigum eftir mögulegan sigur Íslands í seinni leiknum í Georgíu, en þá myndi sá sigur þurfa að vera tæp 20 stig fyrir Ísland til þess að komast áfram.

Auðveldasta leiðin fyrir Ísland til þess að komast á lokamótið er því að vinna Spán heima og Georgíu úti með meira en fjórum stigum. Til vara væri leið tvö að vona að Úkraína nái ekki að krækja sér í sigur á erfiðum útivelli á Ítalíu og þá skiptir Spánarleikur Íslands engu máli og liðið þyrfti bara að ná í fjögurra stiga sigur úti í Georgíu til þess að komast áfram. Erfiðasta mögulega leiðin væri ef að bæði Ísland myndi tapa fyrir Spáni og Úkraína vinna á Ítalíu, að þá myndi Ísland ná í 19 stiga sigur á Georgíu í seinni leiknum og tryggja sig þannig á lokamótið.

Hér fyrir ofan er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að bæði Úkraína og Georgía klári sína leiki gegn Hollandi í næsta glugga, en Holland hefur enn ekki náð í sigur á mótinu eftir fyrstu sjö leiki sína.

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -