22:37
{mosimage}
(Fögnuðurinn lét ekki á sér standa hjá Haukakonum)
Haukar eru komnir á topp Iceland Express deildar kvenna eftir 76-73 sigur á Hamri í uppgjöri toppliðanna að Ásvöllum í kvöld. Slavica Dimovska færði stigin í hús er hún sökkti þriggja stiga körfu af löngu færi um leið og leikflautan gall og fögnuðu Haukakonur af mikilli innlifun í leikslok. Slavica var að öðrum ólöstuðum besti maður vallarins í kvöld með 38 stig, 6 fráköst, 6 stoðsendingar, 4 stolna bolta og tvö varin skot. Slavica fór mikinn á endasprettinum og stal boltanum af LaKiste Barkus í stöðunni 73-73, brunaði upp völlinn þar sem hún lét vaða á körfu Hamars af löngu færi og boltinn fór beint í netið. Draumkenndur sigur Hauka sem hafa sýnt það í vetur að stigin verða torsótt í Hafnarfjörðinn.
LaKiste Barkus opnaði leikinn með vænni stoðsendingu á Juliu Demirer og gestirnir tóku 0-2 forystu en eftir það svöruðu Haukar í sömu mynt og tóku alla stjórn á leiknum. Kristrún Sigurjónsdóttir og Slavica voru sprækar hjá Haukum í upphafi en LaKiste Barkus var dugleg að fiska villur á gestgjafana og þær Slavica og Kristrún voru snemma komnar í villuvandræði. Barkus var þó ekki að finna taktinn með Hamri í sókninni og tók mikið til sín fyrir vikið. Staðan að loknum upphafsleikhlutanum var 28-15 fyrir Hauka sem nýttu það vel að Hamar væri að stóla of mikið á Barkus og höfðu á henni góðar gætur.
Gestirnir úr Hveragerði hófu annan leikhluta á því að skora fyrstu fjögur stigin og virtust þær vera búnar að hrista af sér slakan fyrsta leikhluta. Fanney Guðmundsdóttir sem hefur verið meidd að undanförnu byrjaði leikinn á bekknum en kom snemma með mikla baráttu í Hamarsliðið og gerði 8 stig á skömmum tíma í fyrri hálfleik og dreif sína leikmenn áfram. Hamarsvörnin batnaði einnig til muna og náðu gestirnir að minnka muninn í tvö stig fyrir leikhlé, 44-42, og unnu því annan leikhluta 16-27.
Slavica var með 19 stig í leikhléi hjá Haukum og Guðbjörg Sverrisdóttir var henni næst með 8 stig. Hjá Hamri var Barkus stigahæst með 10 stig en var með -1 í framlagseinkunn þar sem skotnýtingin var hræðileg og stóð eiginlega í vegi fyrir að Hamar gæti tekið forystuna.
Undiralda Hamars hófst í öðrum leikhluta og loks tóku gestirnir forystuna í 46-48 eftir að hafa verið að elta Hauka síðan á upphafsmínútum leiksins. Barkus var mun líflegri í liði Hamars en í fyrri hálfleik en þær Slavica og Kristrún máttu passa sig með þrjár villur svo Helena Hólm hafði gætur á Barkus og gekk það þokkalega. Hamar seig hægt framúr með sterkri vörn þar sem Haukar voru að grýta frá sér boltanum í hvívetna. Dúfa Ásbjörnsdóttir setti sterkan þrist fyrir Hamar þegar 45 sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta og Barkus bætti við tveimur stigum í teignum um leið og flautan gall og staðan því 59-65 fyrir Hamar þegar lokaspretturinn var eftir.
Fjórði leikhluti var æsispennandi. Ragna Margrét Brynjarsdóttir opnaði fjórða leikhluta með körfu og fékk villu að auki þar sem hún sökkti vítinu og staðan 62-65. Lykilleikmenn beggja liða voru komnir í bullandi villuvandræði og mátti lítið út af bregða. Kristrún hafði hægt um sig í síðari hálfleik hjá Haukum en hún átti eftir að minna rækilega á sig!
{mosimage}
Helena Hólm jafnaði leikinn fyrir Hauka í 65-65 með þriggja stiga körfu og þá var eins og heimakonur fengju meiri trú á því að sigur væri handan við hornið. Haukar komust í 68-65 en Hamarskonur voru ekki af baki dottnar og breyttu stöðunni í 70-71 og komust svo í 70-73 með körfu úr teignum frá Juliu Dermirer.
Næsta Haukasókn fór forgörðum en strax á eftir grýttu Hamarskonur frá sér boltanum og Haukar taka leikhlé þegar 23 sekúndur voru til leiksloka. Haukar héldu í sókn og fundu Kristrúnu opna í hægra horninu og hún var öryggið uppmálað og setti niður þristinn og jafnaði leikinn í 73-73 þegar 12 sekúndur voru til leiksloka.
Hamarskonur héldu í næstu sókn og LaKiste Barkus sótti upp hægri kantinn þegar Slavica stelur af henni boltanum, brunar upp völlinn fyrst Haukakvenna og lætur vaða á körfuna. Fáir ef nokkrir í húsinu höfðu trú á því að þetta langskot myndi rata rétta leið á sama tíma og flautan gall. Allt kom þó fyrir ekki og boltinn vildi í netið, 76-73 og Haukakonur ærðust af kæti enda komnar á topp Iceland Express deildarinnar.
Bæði lið sýndu góða baráttu í kvöld. Náðu bæði forystu í leiknum og báðum liðum tókst að jafna metin eftir að hafa verið undir og á köflum var mikil harka í leiknum. Allt í allt var leikurinn hin besta skemmtun að Ásvöllum þar sem Slavica Dimovska átti gólfið með 38 stig og eftirminnilega sigurkörfu. Þær Guðbjörg, Ragna og Kristrún áttu einnig fína spretti í kvöld fyrir Hauka.
Hjá Hamri var Barkus stigahæst með 20 stig en á köflum tók hún of mikið til sín og urðu sóknir Hamars fyrirsjáanlegar fyrir vikið sem gerði Haukum það auðveldara að verjast. Barkus var einnig með 5 stoðsendingar en næst henni var Julia Demirer með 19 stig og 14 fráköst. Fanney Guðmundsdóttir er stór hlekkur í liði Hamars og átti góða rispu í fyrri hálfleik og ljóst að Hamar má ekki við því til lengdar að hafa hana meidda.
Tölfræði leiksins:
http://server4.mbt.lt/prod/kki/index.php/b19sYW5nPWhlJm9fc2Vhcz0yMSZvX2xlYWc9MSZmdXNlYWN0aW9uPWdhbWVzLm1haW4mZ19pZD0zNzM=
Byrjunarlið Hauka:
Ragna Margrét Brynjarsdóttir, Telma B. Fjalarsdóttir, Guðbjörg Sverrisdóttir, Kristrún Sigurjónsdóttir og Slavica Dimovska.
Byrjunarlið Hamars:
Julia Dermirer, LaKiste Barkus, Jóhanna Sveinsdóttir, Íris Ásgeirsdóttir og Hafrún Hálfdánardóttir.
Texti: [email protected]
Myndir: [email protected]
{mosimage}
{mosimage}



