Hinn ungi og efnilegi Kristinn Pálsson frá Njarðvík hélt fyrir veturinn í víking til Stella Azzura á Ítalíu þar sem hann æfir og spilar ásamt því að stunda nám. Liðið er staðsett í höfuðborginni Róm en Stella liðið bauð Kristni til sín fyrir veturinn og liðið einmitt þekkt fyrir að fá unga og efnilega leikmenn til sín eða þá bestu sem Evrópa bíður uppá hverju sinni.
”Ég er búinn að spila nokkuð mikið síðan ég fékk leyfið frá FIBA fyrir tveimur vikum en það tekur lengri tíma að skipta um lið svona milli landa þegar maður er ungur. Það þarf að skoða pappírana mjög vel þannig að ég spilaði ekkert fyrstu vikurnar. Ég spilaði í æfingarmóti í byrjun september með U19 sem við unnum nokkuð auðveldlega svo eftir það tóku nokkrir æfingar leikir við fyrir tímabilið. Ég spilaði fyrsta leikinn með mínum flokk U17 síðan þá er ég búinn að vera að spila á fullu með U17 og U19 og vona á næstunni hvort ég fái að spila með seria B liðinu.” sagði Kristinn sem hefur núna verið á Ítalíu í rúmlega 2 mánuði.
”Það sem ég gerði á meðan ég beið eftir leikheimild var að ég lagði hart af mér á æfingum til þess að komast í liðið strax eftir að pappírarnir voru komnir í lag hugsaði bara um að verða betri leikmaður.”
En er mikill munur á æfingum þarna á Ítalíu miðað við hér heima?
”Munurinn á æfingum hér og heima er sá að mínu mati að allt miklu meira á fullu. Það verður öskrað á þig ef þú ert ekki á 150% sem mér finnst bara gott. Svo fyrir leiki er ekkert bara létt skotæfing heldur 150% æfing allt á fullu. Ég hef einnig verið að vinna í því að bæta á mig kjöti og hef þyngst um ca 6 kg síðan ég kom hingað.” bætti Kristinn við.
“Ég kem heim um miðjan nóvember vegna þess að það er að bætast fjölskyldumeðlimur í fjölskylduna og svo bara um jólin. Annars er ég mjög sáttur við allt hérna. Karfan er mjög góð og skólinn mjög flottur. Við æfum líkt og atvinnumenn, 6-7 klukkustundir á dag. Þetta er allt sem maður dreymir um, spila og hugsa um körfubolta 24 tíma sólarhringsins.” sagði Kristinn að lokum.



