spot_img
HomeFréttirMirko með toppleik gegn Stjörnunni

Mirko með toppleik gegn Stjörnunni

KFÍ og Stjarnan mættust á Ísjakanum á Ísafirði í kvöld í fyrsta leik beggja liða í Lengjubikarnum. Stjörnumenn mættu með vængbrotið lið því þeir voru ekki einungis án Justin Shouse, sem var frá vegna meiðsla, heldur var Teitur Örlygsson einnig fjarverandi og stýrði Snorri Örn Arnaldsson liðinu í staðinn.
 
Það var ekki að sjá að hér væri um leik á undirbúningstímabilinu að ræða því það var hiti í mönnum frá byrjun. Mirko Stefán Virijevic og Fannar Helgason fengu dæmda á sig tvívillu þegar rétt rúmlega mínúta var liðin fyrir að taka aðeins of duglega á hvor öðrum. Rétt um tveimur mínútum seinna fékk Marvin Valdimarsson dæmda á sig tæknivillu eftir að hafa lent í
orðaskaki við Birgir Örn Birgisson, þjálfara KFÍ.
 
Þrátt fyrir mikla baráttu frá báðum liðum í leiknum þá var KFÍ ávalt skrefinu framar í fyrri hálfleik. Mirko Stefán mætti ekki bara aftur á klakann tanaður í drasl heldur virkar hann í mikið betra formi en hann var á sama tíma í fyrra. Skoraði hann 11 af 22 stigum sínum í fyrri hálfleik og undir hans forystu fóru Ísfirðingar með 11 stiga forskot, 44-33, í hálfleik.
 
Einhverja hárþurkumeðferð fengu Stjörnumenn frá Snorra í hálfleik því þeir byrjuðu seinni hálfleikinn á 11-0 áhlaupi og jöfnuðu í stöðunni 44-44. Nær komust þeir hins vegar ekki því Ísfirðingar skoruðu 17 af næstu 21 stigi leiksins og unnu að lokum sanngjarnan 87-77 sigur.
 
Jason Smith var stigahæstur hjá KFÍ með 25 stig en Mirko Stefán var þó bestur Ísfirðinga með 22 stig og 8 fráköst. Hraunar Karl Guðmundsson átti góðan fyrsta leik fyrir KFÍ með 19 stig og 9 fráköst. Baráttuhundarnir Ágúst Angatýjarson og Jón Hrafn Baldvinsson sótthreinsuðu svo spjaldið í fráköstunum en þeir tóku hvor um sig 11 fráköst á innan við 24 mínútum.
 
Hjá Stjörnunni var Marvin Valdimarsson yfirburðar maður en hann skoraði 19 stig og tók 10 fráköst. KáJoð kom næstur með 14 stig og Sæmundur Valdimarsson og Daði Lár Jónsson skiluðu báðir 11 stigum.
 
Dagur Kár Jónsson vill þó líklegast gleyma þessum leik sem fyrst en hann setti einungis niður 5 af 23 skotum sínum og tapaði 6 boltum.
 
Umfjöllun: SS
 
Mynd: Jón Hrafn Baldvinsson, fyrirliði Ísfirðinga, liggur óvígur í gólfinu eftir að hafa fengið óviljandi högg frá Marvini Valdimarssyni í andlitið.
  
Fréttir
- Auglýsing -