spot_img
HomeFréttirMikilvægur sigur Njarðvíkurkvenna!

Mikilvægur sigur Njarðvíkurkvenna!

Njarðvík landaði í kvöld tveimur mikilvægum stigum í baráttu sinni fyrir sæti í úrslitakeppni Domino´s-deildar kvenna með öruggum 84-71 sigri á Stjörnunni. Carmen Tyson-Thomas fór hamförum í liði Njarðvíkinga með 47 stig, 25 fráköst og 5 stoðsendingar en hún fékk 61 framlagsstig fyrir lætin í sér í kvöld. Hjá Stjörnunni var Danielle Rodriguez atkvæðamest með 20 stig og 5 stoðsendingar.

Í stöðunni 9-9 settu Njarðvíkurkonur í gír og breyttu stöðunni í 18-9 og leiddu svo 25-17 að loknum fyrsta leikhluta og 44-34 í hálfleik. Stjarnan var aldrei langt undan en þegar þær nálguðust í t.d. 55-49 þá kom rispa hjá heimakonum og slitu þær sig frá 62-51 í þriðja leikhluta og leiddu 65-51 að honum loknum. Í fjórða leikhluta fór munurinn m.a. í 20 stig, 80-60 og lokatölur reyndust svo 84-71 eftir 4-11 lokasprett Stjörnunnar.

Með sigrinum í kvöld eru Njarðvíkingar þó áfram í 6. sæti deildarinnar en nú með 20 stig eins og Valur í 5. sæti en Stjarnan er í 4. sæti með 24 stig og keppnin um síðasta sætið í úrslitakeppninni er orðin enn meira spennandi nú þegar átta stig eru eftir í pottinum.

Carmen Tyson-Thomas trónir á toppi lista þeirra leikmanna sem skorað hafa flest stig í einum leik á tímabilinu, mest hefur hún gert 53 stig í leik gegn Valskonum en topp fimm listi Carmen er 53, 52, 50, 49 og í kvöld 47 stig gegn Stjörnunni. Hún leiðir deildina með 36,55 stig að meðaltali í leik, er níunda í stoðsendingum með 3,5 og í 2. sæti í fráköstum með 17,21 frákast að meðaltali í leik!

Í kvöld bætti Ína María Einarsdóttir við 15 stigum í liði Njarðvíkur og Karen Dögg Vilhjálmsdóttir var með 9 stig. Hjá Stjörnunni var Ragna Margrét Brynjarsdóttir svo með tvennu eða 18 stig og 12 fráköst.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -