Þór lagði ÍA nokkuð örugglega í Þorlákshöfn í kvöld í 12. umferð Bónus deildar karla, 105-75.
Þórsarar eftir leikinn í 9. sæti deildarinnar með 8 stig á meðan ÍA eru í 11. sætinu með 6 stig.
Segja má að heimamenn í Þór hafi leitt leik kvöldsins frá byrjun til enda. Forskot þeirra eftir fyrsta leikhluta sex stig og þegar í hálfleik var komið munaði sautján stigum á liðunum. Gestirnir af Akranesi náðu lítið að vinna á forystu heimamanna í upphafi seinni hálfleiks, en fyrir þann fjórða hafði Þór enn bætt við, 81-60.
Í lokaleikhlutanum nær Þór svo að koma í veg fyrir að ÍA komist á nokkurn hátt inn í leikinn og er sigur þeirra að lokum gífurlega öruggur, 105-75.
Stigahæstir heimamanna í leiknum voru Djordje Dzeletovic með 31 stig og Lazar Lugic með 21 stig.
Fyrir ÍA var stigahæstur Lucien Thomas Christofis með 16 stig og Josip Barnjak bætti við 15 stigum.



