spot_img
HomeFréttirMikilvægur heimasigur KFÍ

Mikilvægur heimasigur KFÍ

KFÍ tók á móti liði Tindastóls frá Sauðárkróki í leik kvöldins á Jakanum. Fyrir leik skildi að liðin tvö stig og munaði þar einmitt um sigur KFÍ í fyrri leik þeirra í október á síðasta ári. Þá var um mikinn og kaflaskiptan spennuleik að ræða þar sem KFÍ náði að tryggja sér sigurinn á lokamínútunum. Leikmenn þessara liða þurfa venjulega ekki mikla hvatningu í þessar innbyrðisviðureignir enda annálaðir jaxlar í báðum liðum. Með tilliti til stöðu liðanna á töflunni sem og síðustu úrslita mátti bóka hörku rimmu, sem gekk eftir.
 
Í fyrsta leikhluta skildi aldrei nema 1-2 karfa á milli liða. Mikil barátta um alla lausa bolta og nokkuð af töpuðum boltum, en þrátt fyrir það var nokkuð gott jafnvægi í leik þeirra. Staðan var 22:23 fyrir Tindastól eftir fjórðunginn. Það var svo í upphafi annars leikhluta sem KFÍ náði góðum spretti og komst í 28:23, með þristum frá Damier og Kristjáni Pétri. Gestirnir létu þetta ekkert á sig fá og kom hér að þætti Þrastar Leós sem raðaði niður körfum og samtals setti hann 13 stig í þessum leikhluta. Bárður og hans menn geta líklega þakkað honum að staðan var jöfn í hálfleik 41:41.
 
Leikurinn var augljóslega hnífjafn fram að þessu, en í þriðja leikhluta urðu alger kaflaskipti. Vörn KFÍ þéttist smám saman og í sókninni voru þeir að skila ágætis vinnu. Munaði mikið um stórleik Mirkos sem hirti gríðarlega mikilvæg fráköst, sem hann gerði reyndar allan leikinn. Kristján Pétur fór á kostum þarna og setti 9 dýrmæt stig. Tindastóll virtist stundum eiga í miklum vandræðum að spila sig í gegnum vörn KFÍ en þegar þeir náðu að fá hreyfingu á boltann voru þeir, reyndar eins og alltaf, lunknir að finna opna manninn í góðu þriggja stiga skotfæri. KFÍ virtist samt alltaf nokkrum skrefum á undan og leiddu leikinn fyrir loka fjórðunginn 66:58. Sama þróun var í leiknum áfram og virtist KFÍ vera að sigla lygnan sæ þegar staðan var 80:69 og um 5 min eftir af leiknum. Það er samt auðvitað alltof snemmt til þess að afskrifa Stólana svo snemma. Enda komu þeir sterkir til baka á loka mínútunum og náðu að minnka muninn í 83:78 þegar tæplega 2 mínútur voru eftir. Sú atlaga hefur vafalaust kostað mikla orku og þegar við bættist að KFÍ var komið í skottrétt tók við kafli þar sem KFÍ fékk mikið af vítaskotum. Þrátt fyrir ágætis tilraun féll þetta ekki með Tindastól að þessu sinni og KFÍ landaði sanngjörnum sigri. Staðan að leik loknum 92:85 fyrir heimamenn.
 
Roburt Sallie er nýr leikmaður Tindastóls og var hann afar sprækur, boltinn var talsvert í hans höndum í sókninni. Hann á eflaust eftir að aðlagast nýju liði enn betur og láta til sín taka í næstu leikjum með áberandi hætti. Þröstur Leó steig verulega upp í kvöld og ekki ónýtt að eiga slíkan mann á bekknum, hann átti svo sannarlega innkomu kvöldins! George Valantine er kannski ekki sá sókndjarfasti en drjúgur í fráköstum og með athyglisverðan og um leið árangursríkan skotstíl í vítum (86%). Sigtryggur Arnar Björnsson er ungur leikstjórnandi sem skilaði ágætis hlutverki á 22 mínútum, enda þótt framlagstalan sé ekki reiknuð há. Hann gerði nokkuð vel í að hafa gætur á Damier bakverði KFÍ, sem hefur ekki reynst öðrum auðvelt hingað til.
 
KFÍ lék þéttan liðsbolta þar sem varnarleikurinn var oftast það sem allt byggðist á, það er auðvitað vel kunn formúla. Áður var minnst á leik þeirra Kristjáns Péturs og Mirkós sem voru báðir sterkir. Tyrone Bradshaw virðist vaxa með hverjum leik og átti gott kvöld núna. Að lokum verður ekki skilið við umfjöllun um þennan leik án þess að vekja athygli enn á því hversu stöðugur Damier Pitts er í leik sínum. Þessi geðprúði leikmaður leggur sig alltaf fram í vörn og lætur sóknarleikinn líta út fyrir að vera eitthvað voðalega einfalt mál, svo maður skilur stundum ekki vesenið á öðrum! En að öllu gamni slepptu hefur hann reynst algjört hryggjarstykki í endurreisn KFÍ og eins og allir sjá urðu vatnaskil í vetur með komu hans til Ísafjarðar.
 
KFÍ-Tindastóll 92-85 (22-23, 19-18, 25-17, 26-27)
 
KFÍ: Damier Erik Pitts 33/8 fráköst/5 stoðsendingar, Kristján Pétur Andrésson 20/5 fráköst, Tyrone Lorenzo Bradshaw 19/6 fráköst, Mirko Stefán Virijevic 17/15 fráköst, Hlynur Hreinsson 3, Hákon Ari Halldórsson 0, Jón Hrafn Baldvinsson 0, Stefán Diegó Garcia 0, Leó Sigurðsson 0, Björgvin Snævar Sigurðsson 0, Samuel Toluwase 0.
 
Tindastóll: Þröstur Leó Jóhannsson 25, Roburt Sallie 24/13 fráköst/6 stoðsendingar/5 stolnir, George Valentine 12/11 fráköst/5 stoðsendingar, Helgi Rafn Viggósson 10/5 fráköst, Svavar Atli Birgisson 5, Helgi Freyr Margeirsson 3, Sigtryggur Arnar Björnsson 3, Pétur Rúnar Birgisson 3, Þorbergur Ólafsson 0, Ingvi Rafn Ingvarsson 0, Sigurður Páll Stefánsson 0, Hreinn Gunnar Birgisson 0.
 
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Kristinn Óskarsson og Davíð Tómas Tómasson
 
Texti: Helgi Kr. Sigmundsson
Mynd: Baldur Smári Ólafsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -