spot_img
HomeFréttirMikilmennskubrjálæði NBA til leiðinda

Mikilmennskubrjálæði NBA til leiðinda

 
Til þess að verða NBA meistari þarft þú að leika um 100 leiki á tímabilinu og þá er ekki meðtalið einstaklingsæfingar yfir sumarið og undirbúningstímabilið. Þetta gríðarlega álag í stærstu og vinsælustu körfuboltadeild heims hefur getið af sér leiðinlega fylgikvilla sem með reglulegu millibili angra körfuknattleiksunnendur, í það minnsta undirritaðan. 
Í gær birti Karfan.is frétt þess efnis að bandaríski bakvörðurinn Dwyane Wade myndi hugsanlega ekki gefa kost á sér á HM í Tyrklandi og nú hefur franski leikstjórnandinn Tony Parker stigið fram á sjónarsviðið og sagt slíkt hið sama. Wade segir stórar ákvarðanir framundan hjá sér persónulega og Parker vill fá hvíld. Engum dylst að möguleikarnir á mestu og bestu tekjunum er að fá í NBA deildinni og þangað stefna ungir menn með háleita körfuboltadrauma.
 
NBA deildin er orðið svo mikið bákn að leikmenn deildarinnar skipta orðið litum í framan af velgju ef einhver minnist á landsliðsverkefni við þá. Óumdeilt er álagið fyrir leikmann eins og Parker gríðarlegt, kröfur um að standa sig með Spurs og kröfur um að vera einn af máttarstólpum franska liðsins í hvert skipti sem liðið spilar kalla á vinnu allt árið um kring.
 
Nú skulum við bara gera okkur grein fyrir því að Heimsmeistaramótið í körfuknattleik er ekkert hraðmót þar sem þú spilar nokkra leiki og ferð svo heim. Þetta er nú einu sinni Heimsmeistaramót og til þess ætlað að stærstu og sterkustu körfuboltaþjóðirnar tefli fram sínum bestu mönnum til þess að fá úr því skorið hver sé besta körfuknattleiksþjóð í heiminum. Sjaldan verður það niðurstaðan á HM, EM eða á Ólympíuleikunum að þjóð tefli fram sínu allra besta liði í körfubolta, NBA á sökina!
 
Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna leikirnir í NBA deildinni þurfa að vera svona margir, sér í lagi þegar langstærstur hluti þeirra fyrir áramót er vart svipur hjá sjón. Margir hverjir leikirnir fyrir áramót virðast oft vera eins og skylduverkefni sem leikmenn verða að mæta í og geri nákvæmlega ekkert meira en það. Deildin fer ekki að verða almennileg fyrr en einmitt nú þegar liðin átta sig á sinni stöðu og annað hvort þurfa að sækja stig til að komast ofar eða verja góðu sætin sín sem þau höfðu getu og rænu til að ná á fyrri hluta tímabilsins.
 
Nýverið steig einráður Stern (betur þekktur sem David Stern) fram og sagði að hugsanlegt væri að NBA deildin myndi setja á laggirnar NBA lið í Evrópu, ef keppnishallirnar myndu uppfylla kröfur NBA deildarinnar. Það má svo sem vera að NBA deildin hafi allt til brunns að bera í tengslum við íþróttina en Stern, líttu þér nær. Við þurfum nú ekki að fara langt aftur í tímann til að sjá Grikki rassskella The Dream Team (eins og Kaninn kallar sig) á síðasta HM í undanúrslitum, og það með 2-3 svæðisvörn. Síðast fór HM fram á Spáni og ætli Kaninn hafi ekki bara tapað fyrir Grikkjum því keppnishöllin mætti ekki ,,hallarstöðlum“ NBA deildarinnar? Staðlarnir hljóta að hafa verið samkvæmt NBA bókinni í Peking þegar Dream Team rúllaði upp Ólympíuleikunum.
 
Það er algerlega ólíðandi að bestu körfuknattleiksmenn heims séu að hníga niður af álagi og afboða sig á Heimsmeistaramótið því þeir hafi svo miklar skyldur og byrðar í deildarkeppninni sinni. Mikilmennskubrjálæðið sem fyrirfinnst í keppnisfyrirkomulagi NBA deildarinnar hefur um árabil mengað körfuboltann annars staðar í heiminum. Þú verður meira að segja ,,World Champion“ þegar þú vinnur NBA deildina. Það yrði nú aldeilis hlegið að Spánverjum ef Regal Barcelona yrði spænskur meistari í ár og myndi kalla sig World Champions. Stern myndi nú eitthvað mótmæla þann daginn.
 
Að hala niður ljósmyndum og raða þeim upp í myndarlegt plakat virðist því vera orðin eina færa leiðin til þess að sjá alla bestu körfuknattleiksmenn heimsins saman komna. Vonbrigðin felast kannski ekki aðeins í plássfrekju NBA deildarinnar á dagatalinu heldur spila líka þarna inn í viss vonbrigði út af sumum leikmönnum sem veigra sér við landsliðsverkefnum.
 
Það er einlæg von mín að NBA deildin nái ekki að festa klær sínar í liðum í Evrópu og gera þannig Evrópulið eða sterkt lið frá annarri heimsálfu að liði í NBA deildinni. Umheimurinn á ekki að vera beygður undir vilja einnar deildar og það er í besta falli ótrúlega óheilbrigður farvegur fyrir þróun íþróttarinnar á heimsvísu. Þá er óskandi að þeir verði ekki mikið fleiri en Wade og Parker sem stígi fram og kvarti undan álagi.
 
Fréttir
- Auglýsing -