Íslenska landsliðið mun annað kvöld kl. 19:00 hefja leik í undankeppni HM27 með leik gegn Ítalíu í Tortona.
Ásamt Ítalíu og Íslandi eru í riðlinum Bretland og Litháen, en seinni leikur þessa fyrsta glugga keppninnar er komandi sunnudag gegn Bretlandi heima í Laugardalshöll.
Íslenska liðið ferðaðist til Tortona á Ítalíu síðasta sunnudag þar sem leikur þeirra gegn heimamönnum mun fara fram fimmtudagskvöld. Íslenski hópurinn samanstendur af 12 leikmönnum.
Karfan heyrði í nýliða íslenska liðsins Ragnari Ágústssyni og spurði hann út í hvernig það hafi verið að fá kallið og fyrsta leikinn gegn Ítalíu.
Varðandi hvernig tilfinningin hafi verið að vera valinn í fyrsta skiptið í íslenska A landsliðið sagði Ragnar ,,Hún er mjög góð, mikill heiður að vera valinn inn í landsliðshóp. Strákarnir hafa tekið mjög vel á móti mér og hópurinn er mjög samheldinn, þannig hefur verið auðvelt að koma sér inn í þetta.”
Íslandi gengið nokkuð vel á móti Ítalíu í síðustu undankeppnum, unnið tvo af síðustu fjórum leikjum gegn þeim, en varðandi mótherja morgundagsins sagði Ragnar ,,Ítalía er með sterkt lið og með gæða leikmenn í öllum stöðum. En mér líst vel á okkar möguleika ef við náum að fylgja okkar leikplani.”
Líkt og tekið er fram mun fyrsti leikur Ragnars Ísland vera á útivelli, en varðandi hvort hann hlakkaði til að koma heim og spila fyrir Ísland á heimavelli sagði hann ,,Skemmtilegt að byrja á móti sterku liði á útivelli, en auðvitað alltaf draumurinn að fá að spila í Laugardalshöllinni í íslensku treyjunni.”



