spot_img
HomeFréttirMikil dýpt í WNBA nýliðavalinu

Mikil dýpt í WNBA nýliðavalinu

WNBA nýliðavalið átti sér stað síðastliðið miðvikudagskvöld. Nýliðahópur þessa árs er sterkur og hefur mikla dýpt, og munu leikmenn sem valdir voru á miðvikudagskvöld eflaust koma með krafti inn í deildina sem hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár.

Las Vegas Aces, nýjasta lið deildarinnar, átti fyrsta valrétt og valdi yngsta leikmann hópsins, sem var ekki í umræðunni fyrr en innan við sólarhring fyrir nýliðavalið.

Jackie Young

Jackie Young kemur frá meistaraliði háskólaboltans frá því í fyrra, Notre Dame háskólanum, sem tapaði fyrir Baylor í úrslitum þessa árs. Eftir að NCAA tímabilinu lýkur hafa leikmenn aðeins 24 klukkustundir til þess að ákveða hvort þeir vilji skrá sig í nýliðavalið ári á undan áætlun. Jackie Young var eini leikmaðurinn í hópnum sem nýtti sér ákvæðið og skráði sig í valið eftir að hafa aðeins spilað 3 ár með Notre Dame. Hún slæst í hóp með aðeins tveim öðrum leikmönnum sem valdar hafa verið númer 1 eftir að hafa skráð sig snemma í nýliðavalið, þeim Candace Parker (2008) og Jewell Lloyd (2015).

Asia Durr

Asia Durr, leikstjórnandinn fimi frá Louisville var valin með öðrum valrétti af New York Liberty og miðherjinn óstöðvandi, Teaira McCowan frá Mississippi State háskólanum var valin númer 3 af Indiana Fever.

Hér er listi yfir alla valrétti í fyrstu umferð:

  1. Las Vegas Aces – Jackie Young
  2. New York Liberty – Asia Durr
  3. Indiana Fever – Teaira McCowan
  4. Chicago Sky – Katie Lou Samuelson
  5. Dallas Wings – Arike Ogunbowale
  6. Minnesota Lynx – Napheesa Collier
  7. Los Angeles Sparks – Kalani Brown
  8. Phoenix Mercury – Alanna Smith
  9. Connecticut Sun – Kristine Anigwe
  10. Washington Mystics – Kiara Leslie
  11. Atlanta Dream (skipt til Phoenix Mercury) – Brianna Turner
  12. Seattle Storm – Ezi Magbegor

Lista yfir allar 3 umferðir má sjá hér

Notre Dame háskólinn kom oft við sögu í valinu, og í fyrsta skipti í sögunni voru allir byrjunarleikmenn háskólaliðs valdir í nýliðavalinu. Notre Dame átti þrjá leikmenn í fyrstu umferð, Jackie Young (1), Arike Ogunbowale (5) og Brianna Turner (11). Í annari umferð slógust hinir tveir byrjunarliðs leikmennirnir í hóp með liðsfélögum sínum en Jessica Shepard var valin með fjórða valrétt í annari umferð og Marina Mabrey með þeim sjöunda.

Phoenix Mercury er eflaust það lið sem kom hvað best út úr valinu, með 3 valrétti og ein skipti. Mercury tókst að nappa Sophie Cunningham með fyrsta valrétti annarar umferðar, en hún spilar með mikilli ástríðu sem mun passa vel við hlið hinnar alræmdu Diana Taurasi, stjörnuleikmanni Phoenix.

WNBA tímabilið byrjar 24 maí næstkomandi. Spennandi verður að sjá nýjustu kynslóð leikmanna stíga inn á parketið í fyrsta sinn á þessu tímabili, sem hefur alla burði til þess að verða besta tímabil WNBA hingað til.

Umfjöllun / Hanna Þráinsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -