10:56
{mosimage}
(Ainge hefur í mörg horn að líta þessa dagana)
Danny Ainge, yfirmaður körfuknattleiksmála hjá Boston Celtics, hefur sagt í fjölda viðtala að margir framkvæmdastjórar NBA liða hafi haft samband við sig vegna leikmannaskipta. Hann hefur hingað til ekki viljað gefa upp hvaða leikmenn hafa staðið honum til boða – og hverja hann þyrfti að láta í skiptum.
Nú í lok síðustu viku lak út sú saga, líklegast úr herbúðum Boston Celtics, að Shawn Marion sé einn af þeim leikmönnum sem Danny Ainge gæti nælt í. Phoenix Suns munu vera ólmir í að lækka launakostnað og myndu því vilja Theo Ratliff í skiptum fyrir Marion. Samningur Ratliff rennur út undir lok ársins og kemur í veg fyrir að Suns þyrftu að borga svokallaðan Luxury Tax.
Samkvæmt fréttum stærstu staðarblaðanna í Boston báðu Suns einnig um fimmta valréttinn í nýliðavalinu sem fram fer í lok mánaðarins. En samkvæmt heimildum heimasíðunnar Karfan.is, mun Danny Ainge hafa hafnað tilboðinu. Sé það vegna þess að Suns hafi einnig viljað bakvörðinn Delonte West. Nýbakaður framkvæmdastjóri Suns, Steve Kerr, hefur hrifist mjög af þessum unga bakverði og telur að hann muni blómstra sem varaskeifa Steve Nash.
Samkvæmt sömu heimildum hafa leikmenn Boston Celtics nú ólmir reynt að telja Ainge, og öðrum ráðamönnum Celtics, trú um að Rashard Lewis, leikmaður Seattle Supersonics sé leikmaður sem eigi að sækjast eftir. Lewis hefur ákvæði í samningi sínum sem gerir honum kleift að söðla um og leita af betri tilboðum frá öðrum liðum. Boston er ekki undir launaþakinu og gætu því ekki boðið honum neinar umtalsverðar fjárhæðir, en talið er að Celtics munu reyna að fara í gegnum Seattle og bjóða þeim Theo Ratliff og jafnvel einn ungan leikmann í skiptum fyrir Lewis. Samkvæmt heimildum Karfan.is æfa þeir Rashard Lewis og troðslumeistarinn Gerald Green, hjá Boston, saman á sumrin. Þeir eru báðir frá Houston. Lewis mun vera mjög áhugasamur að komast að hjá Boston, því honum líkar mjög vel við Paul Pierce, fyrirliða liðsins.
Samkvæmt þessum sömu heimildum, var einn eitt tilboðið á borðinu. Var talið að Atlanta væru jafnvel tilbúnir að láta Joe Johnson fara, í skiptum fyrir einn ungan leikmann frá Boston, Theo Ratliff og fimmta valréttinn.
Þess má geta að sami heimildarmaðurinn og veitti þessar upplýsingar var langt á undan öllum stærstu miðlum Bandaríkjanna með fréttirnar af Shawn Marion til Boston.



