15:30
{mosimage}
Unglingaráð körfuknattleiksdeildar Tindastóls fékk úthlutað styrk úr Íþróttasjóði ríkisins að upphæð 400 þúsund krónur nú á dögunum. Ráðstafa á styrknum í stúlknaátak sem farið verður í næsta haust.
Karl Jónsson formaður unglingaráðs sagði í spjalli við körfuna.is að markmiðið með þessu átaki væri að efla áhuga stúlkna á körfuknattleik og sporna við brottfalli úr þeirra röðum. Nánari útfærsla á verkefninu verður kynnt fyrir næsta tímabil. "Átakið kemur bæði til með að snúast um íþróttina sem slíka, en einnig munum við gefa félagslega þættinum utan æfinga meiri gaum og setja ákveðinn kraft í það. Stelpur eru miklar félagsverur og til að halda þeim inni í íþróttum almennt þurfum við að taka tillit til þeirra mála einnig", sagði Karl.
En það er fleira að gerast úr starfi unglingaráðsins sem endurreist var sl. haust. "Við fáum nú á fimmtudaginn afhenta viðurkenningu fyrir að hafa uppfyllt skilyrði ”Fyrirmyndardeildar ÍSÍ", sagði Karl. Hann sagði nokkrar ástæður fyrir því að farið hafi verið í þetta verkefni. "Við teljum að með handbókinni sem liggur til grundvallar verkefninu, séum við komin með góðan leiðarvísi í starfinu og allir sem að því komi viti nákvæmlega til hvers er ætlast af þeim og það einfaldar málin mikið að okkar mati. Við fáum líka ákveðið aðhald með því að opinbera stefnu okkar ífjölmörgum málum sem þetta verkefni kemur inn á og þurfum við stöðugt að vera á tánum", sagði Karl.
Unglingaráðið vinnur nú að stofnun Körfuboltaskóla Tindastóls í samvinnu við þrjá af nafntoguðustu leikmönnum Tindastóls í gegn um tíðina; Val Ingimundarson, Pál Kolbeinsson og Pétur Karl Guðmundsson. Þeir félagar munu taka þátt í mótun á starfsemi skólans, sem verður hrein viðbót við hefðbundnar æfingar iðkenda körfuknattleiksdeildarinnar auk þess sem hann mun skipuleggja helgaræfingabúðir á haustin og vorin, sem marka formlega upphaf og endi hins hefðbundna vetrarstarfs. Þá er verið að vinna í því að ráða yfirþjálfara í fullt starf hjá unglingaráði, en sá aðili mun þjálfa sjálfur þrjá flokka auk þess að hafa yfirumsjón með öllu faglegu starfi hjá unglingaráði og veita körfuboltaskólanum forstöðu.
Iðkendur í yngri flokkum Tindastóls hafa verði um 120 talsins í vetur og er það nokkur fjölgun frá því í fyrra. "Við sem sitjum í unglingaráðinu höfum mikinn metnað og ætlum að gera prógrammið okkar hér eins gott og mögulegt er. Hér höfum við góða aðstöðu, mikla hefð til að byggja á og ætlum okkur að sækja fram á mörgum sviðum starfsins. Það sem helst hefur háð okkur er skortur á þjálfurum og vonandi náum við að ráða yfirþjálfara í fullt starf fyrir næsta tímabil og þá gjörbreytist faglegt starf okkar til hins betra", sagði Karl að lokum.



