Mike Budenholzer þjálfari Atlanta Hawks var í dag valinn þjálfari ársins í NBA deildinni með 513 stig í vali 130 íþróttablaðamanna í Bandaríkjunum. Budenholzer stýrði Hawks liðinu til besta árangurs í sögu félagsins með 60 sigurleiki og 22 töp, en hann er aðeins á sínu öðru ári sem aðalþjálfari í deildinni.
Budenholzer bætti árangur liðsins um 22 sigurleiki frá því á síðustu leiktíð. Hawks hófu leiktíðina með fimm sigrum og fimm töpum en þar á eftir sigruðu þeir 35 af næstu 38 leikjum. Þar á meðal sigruðu Hawks alla 17 leiki sína í janúar og 19 leiki í röð sem er lengsta sigurhrina félagsins frá upphafi.
Næst á eftir, aðeins 42 stigum frá Budenholzer lenti Steve Kerr, með 471 stig.
Einnig var opinberað val á sjötta manni deildarinnar en það var Lou Williams hjá Toronto Raptors. Williams var með 15,5 stig að meðaltali í leik í vetur sem er það mesta hjá honum á ferlinum. Þetta er í fyrsta sinn sem Raptors leikmaður hlýtur þessa nafngift en Williams hjálpaði liðinu að ná 49 sigurleikjum í vetur, það mesta í sögu félagsins.



