Stjörnuleikur NBA deildarinnar sem fór fram um síðustu helgi er nú staðfestur sem heimsmetaleikur af Heimsmetabók Guiness en 108,713 manns mættu Cowboys Stadium til að fylgjast með leiknum. Þetta var gert opinbert eftir þriðja leikhluta í leiknum þar sem félagarnir Mark Cuban, eigandi Dallas Mavericks, og Jerry Jones eigandi Dallas Cowboys tilkynntu áhorfendum metið. Ísland átti fulltrúa á leiknum en það voru framkvæmdastjóri og formaður KKÍ þeir Friðrik Ingi Rúnarsson og Hannes S. Jónsson en með þeim í för var sonur Friðriks Inga.
Cowboys Stadium kostaði litla 1,2 milljarða Bandaríkjadollara í byggingu og er leikvangurinn staðsettur í Arlington milli Dallas og Fort Worth. Sá fjöldi sem mætti á Stjörnuleikinn um síðustu helgi er stærri en nokkur áhorfendaskari sem áður hefur komið á leiki Cowboys á þessum nýja og glæsilega velli.
Á fyrsta heimaleik Cowboys í NFL deildinni á þessum nýja leikvangi mættu 105,121 manns sem er áhorfendamet í venjulegum deildarleik NFL deildarinnar. Stjörnuleikur NBA deildarinnar hefur einu sinni áður farið fram á þessu svæði en það var árið 1986 þegar leikurinn fór fram í Reunion Arena. Sú bygging var rifin niður á síðasta ári.
Mynd/ Cowboys Stadium er skrímsli að stærð.



