spot_img
HomeFréttirMenn gegn drengjum er Fjölnir féll

Menn gegn drengjum er Fjölnir féll

Mikið var í húfi í Grafarvogi í kvöld er Fjölnismenn tóku á móti Stjörnunni í síðustu umferð deildarkeppni Domino’s deildar karla. Grafarvogspiltar þurftu nauðsynlega á sigri að halda, ellegar myndu þeir falla í fyrstu deild. Stjörnumenn voru aftur á móti öruggir með heimaleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
 
Fjölnismenn mættu ekki til leiks í fyrsta leikhluta. Gestirnir gerðu nokkurn veginn það sem þeim sýndist og fljótlega var munurinn orðinn 20 stig. Stjörnumenn hittu frábærlega, hirtu nánast öll fráköst og spiluðu frábæra vörn. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 14-35 fyrir gestina, og ljóst að róðurinn yrði þungur fyrir Grafarvogspilta.
 
Sama var uppi á teningnum í öðrum leikhluta. Stjörnumenn kafsigldu heimamenn, og varð munurinn fljótlega 30 stig. Hittni Garðbæinga var með hreinum ólíkindum, meðan Fjölnismenn gátu ekki skorað körfu til að bjarga lífi sínu, sem var einmitt það sem þeir þurftu að gera. Staðan í hálfleik var 32-65, Stjörnumönnum í vil, og vonir Fjölnismanna orðnar ansi veikar.
 
Í þriðja leikhluta veiktust vonir Fjölnismanna enn frekar, en aftur á móti er það þeim til hróss að þeir minnkuðu muninn örlítið. Leikurinn var þó enn alfarið í eigu Stjörnumanna sem leiddu fyrir lokaleikhlutann, 50-83.
 
Engin kraftaverk hefðu getað bjargað heimamönnum á þessum tímapunkti og gáfu þjálfarar liðanna ungum leikmönnum tækifæri stærstan hluta lokafjórðungsins. Undir lok leiksins minnti leikurinn frekar á drengjaflokksleik, þar sem allir leikmenn Stjörnunnar voru undir tvítugu og fjórir af fimm leikmönnum Fjölnis. Þessir ungu og efnilegu leikmenn stóðu sig allir nokkuð vel og ljóst að bæði lið eiga góða framtíðarmenn í sínum röðum. Leikurinn var þó löngu búinn og lauk honum með 71-104 sigri gestanna. Það eru því Fjölnismenn sem fá það leiða hlutskipti að falla í 1. deild og leika þar að ári. Stjörnumenn enda hins vegar í 4. sæti Domino’s deildarinnar og mæta Keflvíkingum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
 
Justin Shouse og Brian Mills gerðu báðir 24 stig í liði Stjörnunnar í kvöld, Mills auk þess með 14 fráköst og Shouse 10 stoðsendingar. Hjá Fjölni var Christopher Smith atkvæðamestur með 20 stig og 8 fráköst.
 
 
 
Umfjöllun/ EKG
 
  
Fréttir
- Auglýsing -