Snæfell og Stjarnan hrundu undanúrslitaeinvígi sínu af stað í gærkvöldi með miklum látum. Snæfell tók 1-0 forystu í einvíginu með 91-90 sigri í rafmögnuðum slag. Hólmarar höfðu betur í frákastabaráttunni og eitt var það sem vakti athygli í tölfræðinni, í fyrsta sinn á tímabilinu var Stjarnan ekki með eitt einasta sóknarfrákast!
Stjarnan tók 28 varnarfráköst í leiknum en ekki eitt einasta í sókninni. Það svo sem vantar ekki sentimetrana í lið Garðbæinga og ljóst að Stjörnumenn voru hreinlega saddir eða um misskráningu sé að ræða. Á sama tíma var Snæfell með 11 sóknarfráköst í leiknum. Annars gæti maður snúið þessu við og hrósað Hólmurum, þar eru seigir refir í búri á borð við Pálma, Sigga Þorvalds, Nonna Mæju, Svein Arnar, Hafþór, Ólaf og Amoroso. Ætli þeir hafi ekki bara verið ,,basic” í gær eins og krakkarnir segja og stigið út fyrir allan peninginn, það hjálpar oft til!
Mynd/ Eyþór Benediktsson – Skotið ríður af hjá Jovan í teig Hólmara, enginn blár mættur í sóknarfrákastið að því er virðist.



