spot_img
HomeFréttirMeisturum Dallas vel fagnað á heimavelli

Meisturum Dallas vel fagnað á heimavelli

 
Hundruðir stuðningsmanna tóku á móti meisturum Dallas Mavericks í gær þegar Dirk Nowitzki og félagar mættu með NBA meistaratitilinn á svæðið. Þetta var fyrsti meistaratitillinn í atvinnumannadeild í Bandaríkjunum í meira en áratug til þess að lenda á svæðinu og fyrsti titillinn í sögu félagsins í NBA.
Eigandi Dallas, Mark Cuban, var vitaskuld fyrstur manna út úr flugvélinni þegar meistararnir lentu heima og hélt hann á sjálfum titlinum en eigandinn litríki hefur vart látið bikarinn frá sér síðan Dallas fékk hann afhentan á heimavelli Miami Heat eftir sigur í sjötta leik liðanna.
 
Næstur út úr vélinni var svo Dirk Nowitzki með sitt eigið ,,bling“ sjálfan titilinn sem besti maður úrslitanna. Cuban hefur svo farið mikinn og sagði m.a. á Twitter: ,,Þetta mun hljóma skringilega, ég ligg uppi í rúmi með titilinn við hlið mér,“ sagði Cuban en veislan í Dallas er rétt að hefjast þar sem fyrirhugað er að liðið muni á fimmtudag taka sigurskrúðgöngu sína um borgina.
 
Cuban hyggst borga kostnaðinn sem hlýst af skúrðgöngunni en ekki láta borgina sitja uppi með reikninginn. Þessi litríki milljarðamæringur keypti Dallas árið 2000 og síðan þá hefur margt gengið á hjá félaginu og Cuban en nú er titillinn í höfn, 11 árum eftir að kappinn keypti Dallas.
 
Dallasborg er að sjá sinn fyrsta stórtitil í atvinnumannadeild síðan árið 1999 þegar Dallas Stars unnu Stanley bikarinn í íshokkí.
 
Fréttir
- Auglýsing -