spot_img
HomeFréttirMeistararnir við stýrið á ný

Meistararnir við stýrið á ný

Það var boðið upp á skemmtilegan leik í Röstinni í kvöld þar sem Grindavík tók á móti KR í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Domino´s deildar karla. Mikil spenna var í leiknum langt fram í þriðja leikhluta en þá slitu Grindvíkingar sig frá og tóku 2-1 forystu.
 
Byrjunarlið Grindavíkur: Jóhann Árni Ólafsson, Aaron Broussard, Samuel Zeglinski, Þorleifur Ólafsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson
Byrjunarlið KR: Brynjar Þór Björnsson, Helgi Már Magnússon, Brandon Richardson, Finnur Atli Magnússon og Darshawn McClellan
 
1. leikhluti
Grindavík náði boltanum í upphafi leiks en Sigurður Þorsteinsson tapaði boltanum á klaufalegan hátt. Sammy Zeglinski opnaði þó leikinn með flottum þrist vel fyrir utan þriggja stiga línuna. Grindavík byrjaði leikinn af krafti og virtust KR-ingar ekki tilbúnir. Grindavík komst sex stigum yfir 10-4 þegar einungis 02.30 voru búnar af leiknum. Grindvíkingar voru að spila hraðann bolta í leikhlutanum og voru þeir komnir í bónus þegar einungis 4 mínútur voru búnar af leiknum. KR virtist vera komast í gang og náðu að minnka muninn niður í 15-12 þegar 03:54 mínútur voru eftir af leikhlutanum en þá gáfu Grindvíkingar í aftur og komust í 24-16. Seinustu 2 stig KR í leikhlutanum komu frá Martin eftir flotta hreyfingu undir körfunni og náði hann að minnka muninn niður í 5 stig, 24-19. Aaron Broussard var ekki lengi að svara og setti niður 3. stiga meter frá línunni, 27-19.
 
Leikhlutinn endaði í tölunum 27-19 Grindavík í vil. Nýting Grindvíkur var töluvert betri en hjá KR en var 2. stiga nýting Grindvíkinga 85.7% (6/7) á móti 60% (9/15) KR.
Sammy Zeglinski og Sigurður Gunnar Þorsteinsson voru báðir með 10 stig í leikhlutanum fyrir hönd Grindvíkinga.
KR var ekki að hitta úr 3. stiga skotunum sínum en gerðu þeir 7 tilraunir og fór enginn ofan í. Brandon Richardson var með 6 stig fyrir KR-inga og átti 2 flott fráköst eftir að hafa skotið sjálfur á körfuna.  
 
2. leikhluti
Leikhlutinn fór hægt af stað en KR komu sterkir til leiks og setti Jón Orri niður fyrstu tvö stig leikhlutans. KR náði að minnka muninn niður í 3 stig 28-25 þegar 06:00 mínútur voru eftir. Spennan magnaðist í húsinu og var leikhlutinn í heild sinni mjög spennandi. KR tókst að jafna um miðjan leikhlutann, 31-31, og kemst síðan yfir í fyrsta skipti í leiknum, 31-33. Þeir halda því ekki lengi en Grindvíkingar voru komnir aftur yfir þegar um 03:30 mínútur eru eftir af leikhlutanum. KR hélt þó í Grindvíkingana og komust yfir í tölunum 38-39. Liðin skiptust þá á að jafna en komust Grindvíkingar  yfir í tölunum 43-41 og tók þá Finnur, þjálfari KR, leikhlé. Martin fékk boltan undir körfu Grindvíkinga og brunaði upp völlinn þar sem einungis 5 sekúndur voru eftir og setti niður flott lay-up og náði þar af leiðandi að jafna 43-43.
Hálfleikstölur voru því 43-43 og spennan búin að vera mikil.
 
Ólafur Ólafsson var ekki að komast á gott ról og var kominn með 3 villur þegar 03.56 mínútur voru eftir af leikhlutanum eftir að hafa spilað einungis 04:13 mínútur og kom hann ekki meir við sögu. Jóhann Árni Ólafsson virtist ekki heldur vera að finna sig og var kominn með 4 stig eftir leikhlutann.
 
Sigurður Gunnar Þorsteinsson var stigahæstur fyrir Grindvíkinga í hálfleik með 12 stig. Sammy Zeglinski var þá með 11 stig og Aaron Broussard með 10 stig þar af 7 í 2. leikhluta.
Martin Hermannsson var besti leikmaður KR í leikhlutanum og skoraði 12 stig, hann var þar af leiðandi stigahæstur fyrir KR með 14 stig í hálfleik. Komu 6 stig í vítum þar sem Martin var að sækja grimmt á körfuna. Brandon Richardsson var með 13 stig ásamt því að vera með 4 stoðsendingar.  Finnur var með snöggar skiptingar í seinni hluta leikhlutans og er þar hægt að nefna þá skiptingu þegar hann tók Martin útaf og hvíldi í einhverjar 40 sekúndur.
 
3. leikhluti
Fyrstu stig leikhlutans komu þegar 01:39 mínútur voru búnar af leikhlutanum. KR mætti sterkara til leiks eftir hálfleik og komust í 44-47. Jóhann Árni Ólafsson setti þá niður mikilvægan þrist fyrir Grindvíkinga og náði að jafna 47-47. Grindvíkingar vöknuðu við þessa körfu og komust yfir 51-49. Þegar 03:37 voru búnar af leikhlutanum og komust KR aldrei yfir eftir það. Grindavík náði þó ekki að sigla hratt fram úr þar sem KR var alltaf stutt á eftir. Þegar 06:00 mínútur voru búnar af leikhlutanum setti Sammy Zeglinski niður lay-up og var staðan þá 59-53 Grindavík í vil. Finnur tók þá leikhlé og setti Helgi niður mikilvægan þrist fyrir KR og náði að minnka muninn niður í þrjú stig, 59-56. Grindavík hélt áfram að skora og kom þá næsti þristur hjá KR frá Brynjari og var staðan þá orðin 66-59 Grindavík í vil. Komust Grindvíkingar 10 stigum yfir 69-59 en KR minnkaði muninn þá aftur niður í 69-65 og voru það tölur leikhlutans.
 
Grindvíkingar spiluðu vel saman og var Samuel Zeglinski kominn með 22 stig, Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 19 stig og Aaron Broussard með 15 stig.  
Martin Hermannsson var kominn með 4 villur um miðjan leikhlutann og skoraði einungis 2 stig í leikhlutanum. Þrátt fyrir það var hann enn stigahæstur með 16 stig og Brandon Richardsson var með 15 stig.  
 
4. leikhluti
Grindvíkingar náðu upp forustu á ný og náðu 11-4 hlaupi á KR, 80-69. KR náði aldrei að gera leikinn spennandi á ný og voru lokatölur leiksins 95-80 Grindavík í vil.
Samuel Zeglinski var stigahæstur fyrir Grindvíkinga með 32 stig ásamt 10 fráköstum og 8 stoðsendingum. Aaron Broussard var með 21 stig ásamt 11 fráköstum og 5 stoðsendingum. Þrátt fyrir mjög skrítinn leik af hálfu Sigurðar Gunnars Þorsteinssonar skilaði hann 21 stigi og 8 fráköstum. Hann tapaði þá 5 boltum og var á tíma eins og hann væri ekki tilbúinn í leikinn. Þorleifur Ólafsson átti flottan leik fyrir Grindavík þrátt fyrir að hafa ekki verið að skora var hann með flotta vörn og hafði góða yfirsýn á leiknum, spilaði hann 30 mínútur í leiknum.
 
Brandon Richardson var með 19 stig fyrir KR ásamt 6 stoðsendingum. Martin Hermannsson var næst stigahæstur með 16 stig þrátt fyrir að hafa spilað einungis 22 mínútur en fékk hann 5 villur í leiknum.  Brynjar Þór Björnssin var þá með 11 stig og Helgi Már Magnússon með 10 þar af voru 2 mikilvægir þristar fyrir KR en tók Helgi einnig 7 fráköst. Finnur Atli Magnússon var ekki að skila sínu fyrir KR og spilaði einungis 15 mínútur .  
 
 
Umfjöllun/ Jenný Ósk Óskarsdóttir
Fréttir
- Auglýsing -