spot_img
HomeFréttirMeistararnir sýndu sparihliðarnar í Fjósinu

Meistararnir sýndu sparihliðarnar í Fjósinu

Grindvíkingar mættu eldhressir í Borgarnes í kvöld í annan leik liðanna í 8 liða úrslitum Dominos deildarinnar. Suðurnesjamenn höfðu einn sigur í trússi sínu eftir sigur í fyrsta leik liðanna suður með sjó s.l föstudag. Heimamenn því með bakið upp að fjósveggnum fræga og þurftu nauðsynlega á sigri að halda til að knýja fram oddaleik, ellegar fara í sumarfrí. Stemmingin í fjósinu var engu lík og fjósamennirnir í stúkunni héldu uppi stuðinu allan leikinn án þess að missa úr takt.
 
Leikurinn var fastur í járnum fyrstu mínúturnar og nokk ljóst að bæði lið voru tilbúin að fórna sér duglega í leik kvöldsins. Í stöðunni 10-9 heimamönnum í hag um miðjan leikhlutann tóku Grindvíkingar hamskiptum. Þeir duttu í þvílíkt stuð að það hálfa hefði líklegast verið alveg nóg. Broussard hreinlega hitti þegar honum datt í hug og þeir Jóhann Árni og Zeglinski stóðu honum ekki langt að baki. Eftir 13-0 framúrakstur Grindvíkinga var staðan orðin 10-22. Að leikhlutanum loknum leiddu gestirnir 19-30 hvar títtnefndur Broussard var kominn með 17 stig.  Vörn Grindavíkur var ógnarsterk í upphafi og það tók Skallana 3 mínútur að finna rétu leiðina fyrir tuðruna.  Í kjölfarið kom ágætis kafli heimamanna, en alltaf áttu gestirnir svar. Vopnabúr þeirra var hreinlega stútfullt og hlaðin byssa í hverju skúmaskoti.  Eftir nokkra þrista frá þeim á skömmum tíma juku þeir forskotið smám saman. Staðan í hálfleik 38-54. Carlos var með 15 stig og Páll Axel 10 fyrir heimamenn.  Hjá Grindavík var Broussard kominn með 19 stig, 10 fráköst, 3 stoðsendingar og 27 framlagsstig. Tölur sem menn gætu gortað sig af eftir 40 mínútna leik. Hittni gestanna í fyrri hálfleik var  hreint mögnuð 9/16 í þristum
 
Broussard hélt uppteknum hætti í upphafi seinni hálfleiks og smellti í þrist í tilefni dagsins.  Grindavík jók forystuna og refsuðu Borgnesingum duglega við hver mistök.  Segja má að úrslitin hafi þarna verið ráðin en bæði lið börðust þó af miklum móð.   Þjálfarar beggja liða fóru snemma í 4. leikhluta að skipta sínum sterkustu mönnum útaf og gefa yngri drengjum tækifæri.  Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks, en ungu drengirnir hjá Skallagrím náðu þó aðeins að klóra í bakkann í lokin með flottri baráttu.  Er tæpar 2 mínútur voru eftir af leiknum og úrslitin löngu ráðin stóðu fjósamennirnir í stúkunni upp og hófu að syngja “stöndum upp fyrir Skallagrím” Þeir linntu ekki látum fyrr en hver einasti maður í fjósinu var staðinn upp.  Reyndar stóðu þeir og sungu sínum mönnum til heiðurs þar til löngu eftir leik. Algjörlega til fyrirmyndar hjá bestu stuðningsmannasveit landsins
 
Grindvíkingar hittu á algjöran toppleik í kvöld. Hittnin var mjög góð nánast allan leikinn og vörnin var sterk á köflum. Það var sama hver kom inná hjá þeim allir stóðu sína plikt með sóma. Breiddin hjá þeim er mjög góð og þeir eru til alls liklegir á komandi vikum. Aron Broussard endaði með 23 stig, 14 fráköst, 7 stoðsendingar og 43 framlagsstig.  Zeglinski kom honum næstur með 20 stig og Jóhann Arni 14.
 
Borgnesingar geta borið höfuðið hátt og verið stoltir af sínum mönnum.  Þeir lögðu sig alla fram og börðust fram á síðustu sekúntu.  Grindavíkurliðið var einfaldlega númeri of stórt fyrir Skallagrím og verðskulda sæti í undanúrslitum.  Medlock var atkvæðamestur Skalla með 31 stig, Palli gerði 14 og sigmar 9
 
 
Myndir/ Ómar Örn Ragnarsson
Umfjöllun/ Ragnar gunnarsson  
 
Fjósamenn létu aldrei deigan síga í stúkunni í kvöld
Fréttir
- Auglýsing -