Snæfell og KR mætast í sínum fjórða undanúrslitaleik í Stykkishólmi í kvöld kl. 19:15 þar sem Hólmarar geta tryggt sér sæti í úrslitum Iceland Express deildar karla með sigri. Staðan í einvíginu er 2-1 Snæfell í vil en fyrstu þrír sigrarnir í einvíginu hafa allir komið á útivelli.
Úrslit úr þremur fyrstu leikjunum:
KR 84-102 Snæfell
Snæfell 88-107 KR
KR 77-81 Snæfell
Eftir að liðin höfðu skipst á því að rassskella hvert annað í tveimur fyrstu leikjunum kom jafn og spennandi leikur í DHL-Höllinni síðasta laugardag. Martin Berkis kann vel við sig í Vesturbænum og í þessari seríu hefur hann sett niður 10 af 14 þristum í leikjunum í DHL-Höllinni.
KR-ingar hafa haft góðar gætur á Sean Burton og hann hefur sjaldan fengið að sjá körfuna með góðu móti. Morgan Lewis hefur aðallega haft gætur á Burton og gert það vel og á hinum endanum hefur háloftafuglinn splæst í ófá tilþrifin.
Eins og títt er í seríu eiga menn upp og niður leiki en alla þrjá leikina til þessa hefur verið gaman að fylgjast með glímu Hlyns Bæringssonar gegn þeim Fannari Ólafssyni og Jóni Orra Kristjánssyni. Hlynur er ekki öfundsverður af þessum andstæðingum sem rúlla á honum til skiptis í leikjunum og Páll Kolbeinsson er fljótur að taka þá út af og láta Finn Atla sjá um miðherjahlutverkið þegar Hlynur er utan vallar. Berserkurinn Hlynur á harma að hefna í kvöld þegar KR tók Snæfell í frákastakennslustund í síðasta leik í Hólminum en óhætt er að búast við því að KR-ingar gefi Íslandsmeistaratitilinn ekki svo auðveldlega eftir.
Landsliðsmiðherjinn Fannar Ólafsson var studdur af velli í síðasta leik meiddur á ökkla. Það kemur í ljós hvort hann verði með í kvöld en baráttujaxlinn verður vísast í búning.
Magnaður slagur í kvöld og fólk hvatt til að mæta tímanlega í Fjárhúsið í Hólminum.
Snæfell-KR
Leikur 4
Kl. 19:15 í Stykkishólmi
Fjölmennum á völlinn
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Pavel Ermolinskij sækir að en Martins Berkis er til varnar.



