Grindvíkingar mörðu í kvöld sigur á Stjörnunni í Ásgarði, lokatölur 90-94. Smá heppni hefði kannski hjálpað Stjörnunni að næla í tvö stig en Grindvíkingar héldu þetta út og hafa nú 26 stig í 3. sæti deildarinnar en Stjarnan 14 í 7. sæti deildarinnar. Nú snýr Junior Hairston aftur í Stjörnubúning en hann hefur setið af sér tveggja leikja bann og er klár í slaginn þann 17. febrúar næstkomandi þegar Stjarnan mætir ÍR í Hertz-Hellinum. Justin Shouse fór fyrir Stjörnunni í kvöld með 36 stig en Jóhann Árni Ólafsson gerði 24 stig í liði Grindvíkinga.
Gösslaragangur var á báðum liðum í upphafi leiks en Marvin Valdimarsson sleit Stjörnuna aðeins frá með þrist og kom Garðbæingum í 17-10. Stjörnumenn börðust vel og áttu frákastabaráttuna í fyrsta leikhluta og í bland við fína vörn leiddu heimamenn 30-20 eftir fyrstu tíu mínúturnar. Varnartröllið Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Grindvíkinga impraði á því við sína menn að mæta til varnar og þessi orð hans tóku sér bólfestu í meisturunum í öðrum leikhluta.
Grindavíkurvörnin skellti í lás í upphafi annars leikhluta og í garð gekk 11-0 syrpa hjá Grindvíkingum þar sem Jón Axel Guðmundsson mætti með fjögur stig í röð og staðan orðin 30-31 fyrir gestina og rúmar þrjár mínútur liðnar af leikhlutanum. Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar kallaði við þetta sína menn á bekkinn og fór yfir málin.
Stjörnumenn rönkuðu við sér um miðbik annars leikhluta, Dagur Kár náði forystunni fyrir Garðbæinga á nýjan leik 42-38 með langdrægum þrist. Lewis Clinch Jr. sem hafði verið sultuslakur allan fyrri hálfleikinn brá undir sig betri fætinum og skoraði og fékk villu að auki og minnkaði muninn fyrir Grindavík í 46-45 þegar 26 sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik. Justin Shouse átti lokaorðið í fyrri hálfleik er hann dripplaði út tímann og vippaði sér svo upp í þrist sem vildi niður og Stjarnan leiddi 49-45 í leikhléi. Shouse var með 15 stig hjá Stjörnunni í hálfleik en Jóhann Árni Ólafsson með 14 í liði Grindavíkur.
Aftur voru það Grindvíkingar sem voru ferskari í upphafi leikhluta, Clinch opnaði með troðslu og skömmu síðar átti Ólafur Ólafsson myndarlega troðslu eftir stoðsendingu frá Jóhanni Árna og Grindvíkingar komnir í 51-57. Stjörnumenn létu ekki stinga sig af og Justin var beittur fyrir heimamenn en gestirnir leiddu 66-71 eftir þrjá hluta.
Fjórði leikhluti var æsispennandi, miðherjinn og Ísafjarðartröllið Sigurður Gunnar Þorsteinsson komst inn í Stjörnusendingu og hentist upp völlinn sem spretthlaupari væri og tróð með látum. Æðisgengin flétta hjá kappanum sem hefur verið ansi drjúgur hjá meisturunum á nýja árinu.
Stjörnumenn misstu svo Jón Sverrisson af velli með fimm villur þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka. Eftir magnaða frammistöðu gegn Haukum í síðasta leik varð Jón að kveðja parketið í kvöld soldið fjarri sínu besta. Sigurður Gunnar var svo aftur á ferðinni og kom Grindavík í 82-87. Heimamenn vantaði á köflum einfaldlega smá heppni til að hjálpa sér með þennan, skot rúlluðu nánast upp úr körfuhringnum og rándýr mistök á borð við glataðar sendingar voru að gera þeim erfitt fyrir.
Þegar allt benti til þess að Grindavík væri að klára verkið og mínúta eftir fengu gestirnir dæmda á sig villu og strax í kjölfarið tæknivíti fyrir mótmæli. Von hjá heimamönnum sem minnkuðu muninn í 86-91 en þetta átti ekki að hafast. Nokkrar tilraunir til viðbótar, teigskot og þristar, vildu ekki rata rétta leið og Grindvíkingar héldu sjó, lokatölur 90-94.
Stjörnumenn töpuðu báðum leikjunum sínum í fjarveru Hairston en sýndu þó að þeir geta vel bitið frá sér, bæði gegn Haukum og Grindavík. Það verður forvitnilegt að fylgjast með þeim nú þegar Hairston kemur inn og að sama skapi Grindvíkingum sem eru á leið í bikarúrslit í Höllinni þann 22. febrúar næstkomandi.
Stjarnan-Grindavík 90-94 (30-20, 19-25, 17-26, 24-23)
Stjarnan: Justin Shouse 36/5 stoðsendingar, Marvin Valdimarsson 22/8 fráköst, Dagur Kár Jónsson 16/4 fráköst, Fannar Freyr Helgason 8/10 fráköst/5 stoðsendingar, Jón Sverrisson 4/4 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 2/8 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 2, Sigurður Dagur Sturluson 0, Sæmundur Valdimarsson 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0, Elías Orri Gíslason 0, Daði Lár Jónsson 0.
Grindavík: Jóhann Árni Ólafsson 24/7 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 21/5 fráköst/5 stolnir, Earnest Lewis Clinch Jr. 19/6 stoðsendingar, Ómar Örn Sævarsson 9/13 fráköst, Ólafur Ólafsson 7/4 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 7, Þorleifur Ólafsson 4, Kjartan Helgi Steinþórsson 3, Jens Valgeir Óskarsson 0, Hinrik Guðbjartsson 0, Hilmir Kristjánsson 0, Daníel Guðni Guðmundsson 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Leifur S. Garðarsson, Georg Andersen
Mynd/ [email protected] – Jóhann Árni Ólafsson gerir hér 2 af 24 stigum sínum í Ásgarði í kvöld.



