spot_img
HomeFréttirMeistararnir halda sínu striki

Meistararnir halda sínu striki

07:12:38
 Rajon Rondo var í lykilhlutverki hjá meisturum Boston Celtics í nótt, en þeir héldu sér á beinu brautinni með sigri á Golden State Warriors, 119-111. Golden State reyndust meisturunum erfiðir og leiddu í 3. leikhluta, en Rondo tók þá til sinna ráða. Hann skoraði 16 af 22 stigum sínum í leikhlutanum og kom sínum mönnum aftur inn í leikinn. Þeir reyndust svo sterkari á lokasprettinum, enda voru stóru nöfnin hjá Boston, Ray Allen, Kevin Garnett og Paul Pierce, allir að leika vel. Boston er nú með vinningshlutfallið 14-2 og hafa unnið 6 leiki í röð.

Úrslit næturinnar og frekari umfjöllun hér að neðan:

San Antonio sigraði Chicago Bulls, 98-88, þar sem varamenn San Antonio gerðu gæfumuninn. Eftir að Tim Duncan og Manu Ginobili, sem er að koma aftur eftir meiðsli, höfðu farið fyrir sínum mönnum í fyrri hálfleik tók nýliðinn George Hill við keflinu og fór, ásamt gamla brýninu Kurt Thomas, illa með Bulls.

Spurs eru nú að rétta úr kútnum eftir brösuga byrjun og eru með vinningshlutfallið 8-6.

Gömlu mennirnir hjá Phoenix, Steve Nash og Shaquille O'Neal, sýndu í nótt að þeir eru ekki dauðir úr öllum æðum þegar þeir leiddu sína menn til sigurs gegn frísku liði Minnesota Timberwolves. Nash var með 20 stig og Shaq bætti við 18 og 10 fráköstum.

Clippers frumsýndu nýjustu stjörnu sína, Zach Randolph, í leik gegn Denver, en eftir mikla spennu hrósuðu þeir síðarnefndu sigri, 106-105. Marcus Camby, fyrrum leikmaður Denver, hafði tækifæri á að snúa leiknum við en þriggja stiga flautuskot hans geigaði.

Nuggets eru með sigurhlutfallið 10-5 og hafa unnið 9 af síðustu 10 leikjum.

Carmelo Anthony var stigahæstur í liði Denver með 30 stig,og Eric Gordon leiddi Clippers með 24 stig.

Þá má geta þess að Orlando Magic eru enn á mikilli siglingu og unnu í nótt sinn 11 sigur í 13 leikjum. Nú voru það Philadelphia 76ers sem lutu í gras, en ekki fyrr en eftir mikla spennu og baráttu.

Lokatölurnar voru 96-94 eftir að Rashard Lewis hafði komið Magic yfir með 3ja stiga körfu þegar tæpar fimm sekúndur lifðu af leiknum.

Dwight Howard fór fyrir Orlando sem fyrr, með 21 stig og 14 fráköst, en Elton Brand var stigahæstur í liði Philadelphia með 21 stig.

Hér eru úrslit næturinnar:

Charlotte 86
Toronto 93

Milwaukee 96
Atlanta 102

Oklahoma City 82
Cleveland 117

Golden State 111
Boston 119

Orlando 96
Philadelphia 94

Phoenix 110
Minnesota 102

New York 96
Detroit 110

Indiana 91
Houston 90

Chicago 88
San Antonio 98

Memphis 100
Utah 117

Miami 68
Portland 106

New Jersey 116
Sacramento 114

Denver 106
LA Clippers 105

Tölfræði leikjanna

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -