spot_img
HomeFréttirMeistarar Snæfells illviðráðanlegar á lokametrunum

Meistarar Snæfells illviðráðanlegar á lokametrunum

 

Snæfell sigraði Skallagrím 71-61 í 22. umferð Dominos deildar kvenna. Eftir leikinn er Snæfell því eitt liða í toppsæti deildarinnar á meðan að Skallagrímur deilir nú 2.-3. sætinu með Keflavík.

 

Fyrir leik

Meisturum Snæfells kannski ekki gengið neitt sérstaklega vel gegn nýliðunum í vetur. Tapað bæði í deildinni, sem og nú síðast í undanúrslitum bikarkeppninnar fyrr í mánuðinum. Þurftu að vinna leik dagsins með 10 stigum eða meira til þess að eiga innbyrðisviðureignina á Skallagrím, en það tókst þeim á síðustu sekúndum leiksins. Verði liðin jöfn að stigum að deildarkeppni lokinni, mun Snæfell því vera í sætinu fyrir ofan og því hafa heimavöll á þær fari svo að þær mætist í úrslitakeppninni.

 

Kjarninn

Leikurinn í dag var stál í stál allt frá fyrstu mínútu. Eftir fyrsta leikhluta leiddu heimastúlkur, 18-17, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var staðan komin Snæfell í vil, 32-36. Í fyrri hálfleiknum var það Sigrún Sjöfn Ámundadóttir sem að var atkvæðamest fyrir Skallagrím með 9 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar á meðan að fyrir Snæfell var það Aaryn Ellenberg-Wiley sem dróg vagninn með 12 stigum, 6 fráköstum og 2 stoðsendingum.

 

Í seinni hálfleiknum er leikurinn svo áfram jafn og spennandi. Liðin skiptast á að taka áhlaup. Fyrir lokaleikhlutann er Snæfell með tveggja stiga forystu, 46-48. 

 

Þáttaskil

Í fjórða leikhlutanum byrja heimastúlkur svo betur, komast nokkrum stigum. Snæfell gefst þó ekki upp og nær loks, með þriggja stiga körfu frá Aaryn, að jafna leikinn aftur, 59-59, þegar rúmar tvær mínútur eru eftir af leiknum. Má segja að upp úr því hafi gestirnir slitið sig aðeins frá. Ná tveimur góðum stoppum og körfum í kjölfarið, koma stöðunni í 59-63. Tveir risastórir þristar á lokamínútunum frá Gunnhildi Gunnarsdóttur og Aaryn innsigla svo örlög Skallagríms. Að lokum sigruðu þær með 10 stigum, 61-71.

 

Lemstraðar

Í upphafi seinni hálfleiksins fer stjörnuleikmaður Skallagríms, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, meidd af velli. Ekki skrýtið að á þeim tímapunkti hafi farið all verulega um stuðningsmenn Borgnesinga, en Sigrun hafði fram að þessu verið virkilega góð í leiknum og breidd leikmannahóps Skallagríms ekki að bjóða upp á mikla fjarveru af hennar hálfu. Stuðningsmönnum til ánægju kom hún þó aftur inn á nokkrum mínútum seinna og var með allt fram til loka leiksins.

 

Ótrúleg tölfræði

Skallagrímur vann frákastabaráttuna í kvöld 54-44 og þar af sóknarfráköstin 22-14. Af þessum sóknarfráköstum fengu þær 19 stig. Samt ná þær ekki að vinna þennan leik.

 

Hetjan

Aaryn Ellenberg-Wiley var eins og svo oft áður frábær í liði Snæfells í kvöld. Skoraði 28 stig, tók 10 fráköst og gaf 7 stoðsendingar á þeim 39 mínútum sem hún spilaði.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn 

 

Umfjöllun / Davíð Eldur

Myndir / Ómar Örn

Fréttir
- Auglýsing -