Haukar hjuggu nærri stigameti tímabilsins þegar þær skelltu toppliði Njarðvíkur í IceMar-Höllinni í kvöld í Bónusdeild kvenna. Lokatölur 80-102 og annar ósigur Njarðvíkinga staðreynd þessa vertíðina. Þær Amandine og Krysta-Jade fóru mikinn í liði Hauka en heilt yfir voru Hafnfirðingar að spila vel. Njarðvíkurmegin var það Danielle Rodriguez sem fór fremst í flokki. Þessi 102 stig sem Haukar skoruðu í kvöld voru bara stigi á eftir stigametum tímabilsins en til þessa eru það einmitt Haukar og Stjarnan sem hafa gert 103 stig í stökum deildarleik á tímabilinu.
Íslandsmeistarar Hauka voru ferskari aðilinn í upphafi leiks í IceMar-Höllinni í kvöld. Gestirnir leiddu 12-15 eftir fyrstu fimm mínútur leiksins og 19-26 að loknum leikhlutanum. Dani var með 6 stig hjá Njarðvíkingum eftir leikhlutann en Amandine 12 hjá Haukum sem voru með 50% skotnýtingu í þriggja fyrstu 10 mínúturnar. Það sem vakti þó meiri athygli voru yfirburðir Hauka í frákastabaráttunni en Njarðvík tók aðeins fjögur fráköst allan fyrsta leikhluta.
Allt annar og betri bragur var á Njarðvíkingum í upphafi annars leikhluta og komust grænar yfir 36-34 þar sem Sara Björk Logadóttir var að gera vel. Njarðvík opnaði annan leikhluta 17-8 en næstu fimm mínútur gerðu Haukar 21 stig með Amandine í broddi fylkingar og leiddu 46-55 í hálfleik. Amandine var í banastuði með 27 stig í fyrri hálfleik en hún lokaði honum með stolnum bolta og körfu fyrir gestina sem fóru með myndarlegan meðbyr inn í búningsklefa.
Tvær Haukakonur voru þó komnar á hættusvæði en Hafnfirðingar annálaðir fyrir stífan varnarleik. Þær Tinna og Þóra báðar með þrjár villur í fyrri hálfleik. Dani var áfram stigahæst Njarðvíkinga með 13 stig í hálfleik og Amandine 27 hjá Haukum eins og áður segir.
Það ætti ekki að koma neinum á óvart að Amandine hefði opnað síðari hálfleik með þrist fyrir Hauka, enn í banastuði rétt eins og í fyrri hálfleik. Haukar áttu þriðja leikhluta að mestu, náðu mest upp 17 stiga forystu en Njarðvík náði að minnka muninn í 12 stig og staðan 66-78 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Þóra og Sigrún bættu í villuvandræði sín í þriðja þar sem þær báðar fengu fjórðu villuna sína í leikhlutanum.
Sólrún og Þóra settu tvo þrista í röð fyrir Hauka snemma í fjórða og Haukar komust í 66-87. Njarðvík náði aldrei að ógna forystu gestanna eftir þetta og lokatölur urðu því 80-102 eins og áður segir.
Amandine var að öðrum ólöstuðum besti leikmaður vallarins í kvöld með 36 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar. Krystal-Jade bætti við 27 stigum, 14 fráköstum og 6 stoðsendingum. Hjá Njarðvík var Daniell með 25 stig og 5 fráköst. Eftir sigur kvöldsins eru Haukar með 10 stig í 6. sæti deildarinnar og Valur færði sig upp á toppinn með Njarðvík þar sem bæði lið hafa 14 stig.



