spot_img
HomeFréttirMeistarar Grindavíkur með öruggan sigur á ÍR

Meistarar Grindavíkur með öruggan sigur á ÍR

Grindavík vann í gærkvöldi öruggan sigur á ÍR í Domino´s deild karla. Grindavík hefur nú sex stig í deildinni eins og KR, Haukar og Þór Þorlákshöfn en ÍR-ingar hafa fengið þrjá skelli í röð eftir sigur í fyrstu umferðinni gegn Skallagrím.  
 
Byrjunarlið Grindavíkur: Jóhann Árni Ólafsson, Jón Axel Guðmundsson, Þorleifur Ólafsson, Ólafur Ólafsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
 
Byrjunarlið ÍR: Björgvin Hafþór Ríkharðsson, Matthías Orri Sigurðsson, Sveinbjörn Claessen, Terry Leake Jr. Og Hjalti Friðriksson
 
Í fyrstu virtist leikurinn ætla að vera fremur óspennandi þar sem Grindvíkingar komust í 35 – 17 í fyrsta leikhluta. Grindvíkingum tókst að skora 13 stig á móti engu hjá ÍR-ingum en þá var staðan 20 – 5. Grindvíkingar komust mest yfir með 19 stigum í leikhlutanum enda spiluðu þeir góða vörn og voru að pressa. Jóhann Árni Ólafsson setti niður 12 stig í fyrsta leikhluta og Sigurður Gunnar Þorsteinsson 11 stig. ÍR-ingar voru ekki að spila sitt besta og var Hjalti Friðriksson stigahæstur hjá þeim í fyrsta leikhluta með 5 stig.
 
Í öðrum leikhluta tókst ÍR að hægja örlítið á ferð Grindvíkinga. Stigamunurinn fór ört minnkandi í seinni hluta leikhlutans og tókst þeim að minnka muninn niður í 7 stig, 50 – 43. Jóhann Árni Ólafsson skoraði einungis 4 stig í leikhlutanum og Sigurður Gunnar Þorsteinsson tvö stig en voru þeir stigahæstir í leikslok fyrir Grindvíkinga. Sveinbjörn Claessen var með hörku leikhluta og setti niður 12 stig á 5 mínútum en hann hafði ekki sett niður eitt stig í fyrsta leikhluta þar sem hann spilaði 8 mínútur.
 
Jóhann Árni Ólafsson var með 16 stig fyrir Grindvíkinga í hálfleik og Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 13 stig.
 
Sveinbjörn Claessen var með 12 stig í hálfleik fyrir ÍR en þar næst kom Hjalti Friðriksson með 9 stig.
 
Þriðji leikhluti var í svipuðum dúr og annar leikhluti en ekki var beint hægt að segja að þetta hafi verið í einhverri líkingu við leik Njarðvíkur og Keflavíkur um daginn, maður leit upp í stúku og sá að margir hverjir voru farnir að geyspa. Spennan var ekki mikil og var leikurinn frekar leiðigjarn. Grindvíkingar náðu að auka muninn aftur og voru 15 stigum yfir eftir leikhlutann 74 – 59. Jóhann Árni Ólafsson átti hörku leikhluta og setti niður restina af sínum stigum leiksins en alls setti hann niður 29 stig. Ekki var hægt að sjá tilþrifin hjá ÍR en stigahæstur hjá þeim var Sveinbjörn Claessen en hann setti niður 5 stig í leikhlutanum.
 
Í fjórða leikhluta hélt Grindavík forskotinu sínu og leikurinn var senn á enda. Ungu strákarnir komu inná í báðum liðum og setti Hilmir Kristjánsson niður tvo þrista fyrir Grindvíkinga. Leikurinn endaði í tölunum 98 – 73.
 
Stigahæstur fyrir Grindvíkinga var Jóhann Árni Ólafsson með 29 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Sigurður Gunnar Þorsteinsson var með 21 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar, þá var Þorleifur Ólafsson með 15 stig og 5 fráköst.
 
Stigahæstur fyrir ÍR var Sveinbjörn Claessen með 19 stig og 7 fráköst. Hjalti Friðriksson var með 15 stig og 10 fráköst, þá var Terry Leake Jr. með 14 stig og 12 fráköst.
 
Umfjöllun/ JÓÓ
 
Fréttir
- Auglýsing -