Nú er keppni lokið í úrvalsdeildum á Norðurlöndunum og því ekki úr vegi að kíkja á hverjir voru að henda dollum á loft síðustu daga og vikur. Við þurfum vart að fjölyrða um niðurstöðuna hér á Íslandi enda heyrast enn fagnaðarlæti í Vesturbænum og í Stykkishólmi.
Noregur:
Asker er norskur meistari leiktíðina 2009-2010 eftir 3-1 sigur á Tromsö í úrslitaseríu norsku úrvalsdeildarinnar. Glæsileg leiktíð að baki hjá Asker sem unnu 20 deildarleiki og töpuðu aðeins einum. Asker vann Ammerud 2-0 í undanúrslitum og fóru svo og tóku þann stóra í úrslitum gegn Tromsö. Ronny Karlsen var valinn besti leikmaður ársins hjá Eurobasket og Asker áttu tvo leikmenn í liði ársins.
Svíþjóð:
Norrköping er sænskur meistari í ár eftir öruggan 4-1 sigur á Plannja í úrslitum deildarinnar. Helgi Már Magnússon og félagar í Solna Vikings lágu 3-2 gegn Norrköping í undanúrslitum en Jakob Örn Sigurðarson og félagar í Sundsvall Dragons duttu út 3-1 gegn Uppsala í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Jakob Örn fór mikinn í vetur og var hlaðinn verðlaunum í uppgjöri Eurobasket-síðunnar. Jakob var valinn leikmaður ársins, bakvörður ársins, Evrópuleikmaður ársins og var valinn í fimm manna lið deildarinnar.
Finnland:
Pyrinto er finnskur meistari eftir 3-2 sigur á ToPo Helsinki í oddaleik en Logi Gunnarsson lék m.a. með ToPo á sínum tíma. ToPo komst í 2-1 í einvíginu en Pyrinto gáfust aldrei upp og unnu tvo síðustu leikina. Titillinn er sá fyrsti í sögu Pyrinto í efstu deild í Finnlandi en þar hefur liðið leikið í 43 ár án þess að verða meistari svo ef þið hélduð að menn hefðu fagnað í Hólminum ætti eflaust að geta enn heyrst í Finnunum ef fólk leggur vel við hlustir.
Danmörk:
Svendborg Rabbits eru danskir meistarar eftir 4-1 sigur á Bakken Bears í úrslitaeinvígi dönsku úrvalsdeildarinnar. Svendborg fór 9-1 í gegnum úrslitakeppnina en Torre Johnson leikmaður Bakken Bears var valinn besti leikmaður deildarinnar þetta tímabilið í Danmörku af Eurobasket. Þá var Adama Darboe fyrrum leikmaður Grindavíkur og núverandi leikmaður Horsholm 79ers valinn í All-Domestic liðið (einungis skipað dönskum leikmönnum).
Ísland:
Snæfell meistari í Iceland Express deild karla
KR meistari í Iceland Express deild kvenna
Hlynur Bæringsson leikmaður ársins í Iceland Express deild karla
Signý Hermannsdóttir leikmaður ársins í Iceland Express deild kvenna
Ljósmynd/ Pyrinto urðu einnig deildarmeistarar í Finnlandi



