Benóný Harðarson, eitt sinn reiðasti maður Grindavíkur, hefur ekki átt síðustu dagana sæla eftir að ljóst varð að Grindavík og KR muni leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í Domino´s deild karla. Þannig er mál með vexti að Benóný eða Bensó eins og hann er jafnan kallaður er fæddur og uppalinn Grindvíkingur en hefur síðustu misseri alið manninn hjá KR og orðinn einn af innstu koppum í búri úti í Vesturbæ.
Fjöldamargir hafa orðið til þess að inna Bensó eftir því með hvoru liðinu hann heldur í úrslitaseríunni og vilja hans vinir og vandamenn ekki þekkjast að hann haldi með báðum liðum. Karfan.is tók púlsinn á Bensó sem sagði málið hið flóknasta.
„Þetta er flókið mál þar sem bæði lið eru í fremstu röð, Grindavík er staðurinn sem ég ólst upp á, sat í stjórn deildarinnar í 6 ár auk þess sem ég starfaði sem framkvæmdastjóri og þjálfaði yngri flokka þar. Margir leikmenn eru góðir vinir mínir og þykir mér mikið vænt um t.d Ólafssyni, auk þess sem litli bróðir fær stöku sinnum að verma tréverkið hjá liðinu,“ sagði Bensó sem þiggur svo laun hjá KR sem þjálfari.
„Ég er einnig sá maður sem er búinn að mæta í flest liðspartý hjá Mfl karla í KR í vetur þrátt fyrir að vera ekki leikmaður eins og flestir vita. KR-ingar eru því líka miklir vinir mínir auk þess sem stjörnukokkurinn Pavel er duglegur að elda ofan í mig og er ekki ofsögum sagt að matarást mín er mikil á honum, það verður einnig að geta þess að í KR liðinu er líklegast myndarlegasti maður landsins hann Helgi Magnússon sem gerir valið ekki auðveldara,“ en öllu lofi fylgir auðvitað last.
„Mínusinn við KR er þó Darri Hilmars en einkennileg vinátta hefur orðið á milli hans og kærustunnar minnar að undanförnu. Eins og lesendur sjá er úr tveimur frábærum kostum að velja og ógjörningur að velja á milli. Þetta eru tvö stórveldi sem eiga bæði sigurinn skilið“
KR-Grindavík
Leikur nr. 1 – í kvöld kl. 19:15
DHL-Höllin í Vesturbænum
Úrslit Domino´s deildar karla
Ljósmynd/ Af Fésbókarprófíl Bensó



