Tracy McGrady hafði vonandi ekki keypt sér flugmiða til Sacramento því að áður en skiptaglugganum lokaði í kvöld voru NY Knicks komnir inn í myndina og hann verður því í Stóra Eplinu fram á sumarið hið minnsta.
Skiptaglugginn er nú lokaður og voru engar stórbombur sem féllu á síðustu mínútunum.
Í fyrrnefndum skiptum, sem var búið að greina frá að hluta til hér á Körfunni.is fyrr í dag, fór Kevin Martin frá Sacramento til Houston en meðal annarra lykilmanna í skiptunum, var Carl Landry sem fór frá frá Houston til Sacramento, Larry Hughes frá Knicks til Sacramento og Sergio Rodrigues frá Sacramento til Knicks.
Aðrir í þessum skiptum voru skiptimynt (í orðsins fyllstu merkingu), en Knicks verða guðs lifandi fegnir að sleppa við Jared Jeffries, sem var gagnslaus en háttlaunaður, en allt í allt má segja að öll liðin þrjú hafi fengið eitthvað fyrir sinn snúð hvort sem það felst í betri hópi eða lægri launaskrá.
Annars staðar í NBA fór John Salmons frá Chicago Bulls til Milwaukee Bucks eins og við greinum frá fyrr í dag, en þegar skiptin voru staðfest síðar, var ljóst að Bulls fengu í staðinn þá Hakim Warrick og Joe Alexander, sem báðir eru samningslausir í lok leiktíðar.
Þá sendu Bulls framherjann Tyrus Thomas til Charlotte Bobcats í skiptum fyrir Acie Law, Flip Murray og valrétt.
Stærsta fréttin af lokametrum skiptagluggans er hins vegar þau skipti sem áttu sér ekki stað, þ.e. Amare Stoudemire, sem forsvarsmenn Phoenix falbuðu um alla deild síðustu daga, m.a. til Cleveland og Miami Heat, áður en þeir ákváðu að aðhafast ekkert.
Má ætla að Stoudemire sé ansi leiður á þófinu enda hefur honum verið dinglað sem beitu í leikmannaskiptum síðustu tvö árin án þess að neitt gerist. Hann hefur valkost um að segja upp samningi sínum í sumar og verður að teljast líklegt að hann haldi á önnur mið.



