Hrannar Hólm hefur verið ráðinn þjálfari danska kvennalandsliðsins í körfuknattleik til næstu þriggja ára. Hrannar hefur gert það gott með danska kvennaliðið SISU en undir hans stjórn hefur félagið orðið tvöfaldur meistari í Danmörku undanfarin fjögur ár og á dögunum var hann útnefndur þjálfari ársins í dönsku úrvalsdeildinni annað árið í röð. www.mbl.is greinir frá.
„Ég hlakka mjög til þess að taka þetta verkefni af mér. Það eru margir hæfileikaríkir leikmenn til staðar og það verður áhugavert að sjá hvernig liðið stendur sig í leikjum á móti Austurríki og Íslandi í júlí,“ segir Hrannar Hólm á vef danska körfuknattleikssambandsins.
Hrannar er reyndur þjálfari sem hefur meðal annars þjálfað karlalið KR, Njarðvíkur og Þórs á Akureyri. Hann hefur frá árinu 2012 starfað sem íþróttastjóri danska körfuknattleikssambandsins samhliða því að þjálfa SISU.