Víðir Sigurðsson íþróttafréttastjóri Morgunblaðsins ritar í Morgunblaðið í morgun um hversu góð skil eru gerð á tölfræði þáttum í körfuboltanum. Þar er hann orðinn svo góðu vanur að hann fór að rífast og skammast aðeins skömmu eftir að leikur var flautaður af um hversvegna tölfræði leiksins væri ekki kominn á póstinn hjá honum. Honum varð hinsvegar fljótlega hugsað að svona lagað væri einsdæmi og um leið hversu mikla yfirburði körfuboltinn hefði í tölfræði skilum á aðrar íþróttir.
Í grein sinni lýsir Víðir því hvernig tölfræði úr öllum leikjum, jafnvel yngriflokkum er hægt að nálgast strax eftir leik og jafnvel á meðan leik stendur. Einnig er þar sagt frá að hinar og þessar íþróttir eigi ágætis kerfi og að jafnvel hið moldríka samband KSÍ sé með ágætiskerfi en að hending sé á því hvort félög séu búin að henda inn skýrslu klukkutíma eftir leik og bendir á í leiðinni að ekki sé flókið að setja inn nokkur gul spjöld og mörk , í það minnsta töluvert auðveldara en allar körfur, fráköst, stoðsendingar sem eru í körfunni. Víðir endar svo grein sína á að lýsa því hvernig Handboltahreyfingin er ljósárum á eftir öllum öðrum. Hvetjum alla til að ná sér í eintak af Mogga dagsins og lesa þessa grein Víðis.



