spot_img
HomeFréttirMáttvana Valsarar auðveld bráð toppliðsins

Máttvana Valsarar auðveld bráð toppliðsins

Snæfell viðhélt fjögurra stiga forystu sinni á toppi Domino´s deildar kvenna með öruggum sigri á Val í Vodafonehöllinni í kvöld. Lokatölur 52-75 Snæfell í vil þar sem Valskonur áttu einn af sínum verstu dögum á tímabilinu. Járnklærnar úr Stykkishólmi héldu Val í 52 stigum í kvöld sem er aðeins einu stigi meira en lægsta stigaskor liðsins þessa vertíðina. Hólmarar buðu upp á heilar 17 prósentur í þriggja stiga nýtingu í kvöld en það kom ekki að sök, heimakonur voru í 10 prósentunum!
 
 
Skotnýtingin í fyrri hálfleik í Vodafonehöllinni í kvöld var í ekki ósvipuðu prósentuhlutfalli og fjármagnstekjuskatturinn svo eftir fimm mínútna leik var staðan aðeins 4-5 heimakonum í vil. Hólmarar bættu þó fljótt við sig snúning og leiddu 11-15 að loknum fyrsta leikhluta sem var æði brösugur og mistækur á báða bóga.
 
Anna Martin nýr Bandaríkjamaður í liði Vals komst lítt áfram í sínum aðgerðum gegn Snæfellsvörninni og virkaði á köflum hreinlega rög en við höfum af því spurninar að hún gangi ekki 100% heil til skógar sökum meiðsla. Heimakonur voru að tapa allt of mörgum boltum gegn Snæfell og gátu vart keypt körfu. Topplið Snæfells var heldur ekki að nýta aðstæður sér til fulls og því var munurinn aðeins 11 stig í hálfleik, 23-34. Anna Martin lét glitta í vígtennurnar á síðustu mínútu fyrri hálfleiks með tveimur þristum og skyldi maður ætla að rispa heimakvenna undir lok fyrri hálfleiks ætti eftir að hjálpa þeim til að keyra sig betur í gang en þessi litli ljósi kafli skilaði sér ekki inn í síðari hálfleikinn.
 
Í þriðja leikhluta komst munurinn í fyrsta sinn upp í 20 stigin þegar Hildur Sigurðardóttir setti þrist og jók muninn í 34-54. Þrátt fyrir þennan 20 stiga mun hafði Snæfell aðeins sett niður þennan eina þrist í 11 tilraunum! Helga Hjördís Björgvinsdóttir átti góðar rispur í liði Snæfells í þriðja leikhluta og leiddu gestirnir 36-58 fyrir fjórða og síðasta hluta.
 
Fjórði leikhluti varð aldrei spennandi en það var Rebekka Rán Karlsdóttir sem bjargaði því að Valskonur myndu ekki setja vafasamt met þetta tímabilið. Þegar nokkrar sekúndur lifðu leiks skoraði Rebekka í teignum og breytti stöðunni í 52-75 sem urðu lokatölur en stigalægsti leikur Vals á tímabilinu fyrir kvöldið var 51 stig gegn Haukum.
 
Hildur Sigurðardóttir var í LeBron James þrennudaðrinu í kvöld með 18 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar í liði Snæfells en þær Guðbjörg Sverrisdóttir og Anna Martin voru báðar með 12 stig í liði Vals. Öllu á botninn hvolft þá var leikurinn lítt fyrir augað en topplið Snæfells landaði sigri þó Hólmarar hafi oft leikið betur.
 
Valskonur þurfa að vera fljótar að sleikja sárin því næst á dagskrá er leikur gegn Keflavík en Hólmarar heimsækja Hvergerðinga í Blómabæinn.
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -