spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaMatthías Orri Sigurðarson "Ekki sammála Kristófer en virði ákvörðun hans"

Matthías Orri Sigurðarson “Ekki sammála Kristófer en virði ákvörðun hans”

Karfan sló á þráðinn til leikstjórnanda KR, Matthíasar Orra Sigurðarsonar, og spurði hann út í komandi tímabil og fleira tengt boltanum.

„Ég er í toppformi og nánast meiðslalaus – þetta beinmar sem hefur hrjáð mig í eitt og hálft ár er á góðri leið með að hverfa og líkamlega þjálfunin hefur gengið mjög vel hjá mér. Þetta Covid ástand hefur auðvitað verið og er ömurlegt – en ég náði hins vegar að hvíla mig líkamlega og ég þurfti þess, og ég er allur mikið betri í skrokknum nú en á sama tíma í fyrra,“ segir Matthías Orri sem er bjartsýnn fyrir komandi tímabili:

„Ég tel að KR-liðið sé alveg nógu gott til að berjast um alla titla – við ætlum okkur langt og stefnum bara alveg ótrauðir í að ná í næsta titil. Svo er líka kominn tími á að klára bikarkeppnina. KR stefnir alltaf á toppinn og það verður engin breyting á því þetta tímabilið.“

Darri eftir sigurleik með Val

Nýr þjálfari tók við KR í vor, Darri Freyr Atlason, og segir Matthías Orri að honum fylgi ferskir vindar. „Ég er mjög ánægður með Darra sem þjálfara og ég held að það séu það bara allir. Hann kemur inn með margar skemmtilegar pælingar og hann útskýrir fyrir leikmönnum hvað sé að baki hugmyndum hans. Hann er gríðarlega áhugasamur og hugmyndaríkur þjálfari og koma hans til KR er ekkert nema jákvæð. Það er góð stemmning í hópnum og tilhlökkun.“

KR missti á dögunum einn besta leikmann sinn, Kristófer Acox, til Vals, og þá er ekki langt um liðið síðan gamla goðsögnin Jón Arnór Stefánsson yfirgaf KR og fór einnig í Val. Voru þetta mikil högg fyrir KR?

„Já, klárlega. Vissulega er Jón Arnór að fara að spila sitt síðasta tímabil og ég skil alveg að hann viljað prófa nýja hluti svona í restina á ferlinum. Þó hann sé kannski ekki alveg eins atkvæðamikill í dag eins og hér áður fyrr þá er mikill missir af honum. Hann er toppmaður sem hefur svo margt fram að færa, bæði innan vallar sem utan. Það væri síðan alveg honum líkt að enda ferilinn á einhverju sprengitímabili,“ segir Matthías Orri og bætir við:

„Hvað Kristófer varðar þá er það mál öðruvísi og erfiðara. Hann er æskuvinur minn og ég mun sakna hans mjög mikið. Mér finnst alveg ömurlegt að missa hann úr KR. Hann hringdi í mig og sagði mér frá ákvörðun sinni og ég virði hana þótt ég hafi ekki verið sammála honum hvað þetta mál varðar. Svo er líka tímasetningin slæm enda stutt í mót”

Jón Arnór Stefánsson með KR í leik í DHL Höllinni, en hann samdi við Val í sumar

“En Kristófer og Jón Arnór eru toppmenn og ég vil auðvitað að þeir sem einstaklingar geri það sem þeir vilja, og þeir fóru í Val og ekkert við því að segja. Það er mikill missir af þeim en það kemur alltaf maður í manns stað og svona er bara boltinn stundum.“

Að lokum er Matthías Orri spurður út í útlendingamál KR-inga – er eitthvað að frétta?

„Það er kannski ekki mitt að tilkynna um slíkt, en ég veit þó að það eru tveir útlendingar á leiðinni til okkar, Kani og svo Bosman-leikmaður. Þeir eru bara alveg að fara að lenda, en ég get ekki sagt hverjir það eru, það er ekki mitt að gera.“

Umfjöllun / Svanur Már

Fréttir
- Auglýsing -