spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaMatthías Orri aftur á leið í KR?

Matthías Orri aftur á leið í KR?

Bakvörðurinn Matthías Orri Sigurðarson hefur samkvæmt heimildum Vísis.is verið að æfa með Subway deildar liði KR á nýjan leik og mun hann mögulega taka fram skóna á nýjan leik til þess að hjálpa félagi sínu sem er í afar erfiðri stöðu á botni deildarinnar með aðeins einn sigur í fyrstu tíu leikjum sínum.

Matthías hefur síðan hann lagði skóna á hilluna fyrir síðasta tímabil bæði verið í og í kringum stjórn félagsins, sem og leikið með b liði þeirra í 2. deildinni. Ljóst væri að um hvalreka væri að ræða fyrir KR, en síðast þegar leikmaðurinn spilaði fyrir a lið félagsins, tímabilið 2020-21, skilaði hann 14 stigum, 4 fráköstum og 5 stoðsendingum að meðaltali í leik.

Næsti leikur KR er á milli jóla og nýárs gegn Stjörnunni, en þar sem Matthías er enn skráður í félagið þarf ekki félagaskipti fyrir hann til þess að spila leikinn.

Fréttir
- Auglýsing -