spot_img
HomeFréttirMatthías Orri: Adrenalín við verkjunum

Matthías Orri: Adrenalín við verkjunum

Aðspurður að því hvort hann myndi spila með í mikilvægasta leik ÍR liðsins á tímabilinu sem verður í kvöld í Hertz hellinum, sagði Matthías Orri Sigurðarson stutt og laggott: “Auðvitað!”
 
Eitthvað segir undirrituðum að hundrað villtir hestar gætu ekki haldið Matthíasi frá þessum leik, hvað þá snúinn ökkli.
 
ÍR spilaði síðasta heimaleik án Matthíasar, sem ekki kom að sök því ÍR sigraði þann leik gegn arfaslökum Snæfellingum. Því næst mættu þeir Haukum á Ásvöllum og fengu þar skellinn þar sem þeim var haldið í 65 stigum, það lægsta frá ÍR í vetur.
 
Það er því engum blöðum að fletta að Matthías er gríðarlega mikilvægur ÍR liðinu og þátttaka hans í leiknum mun gefa þeim byr undir báða vængi.
 
“Ég er ekki laus við alla verki, en ég býst við að adrenalínið fái mig til að gleyma því.”
 
Matthías sagðist hafa ákveðið að lesa ekki pistilinn okkar á Karfan.is um hvaða lið gætu hangið upp eftir leikinn í kvöld. “Markmiðið verður bara að klára leikinn.”
 
Matthías biðlar til stuðningsmanna ÍR nær og fjær að láta sjá sig í Hellinum í kvöld og “láta vel í sér heyra eins og Breiðhyltingum er einum lagið! Það skiptir miklu máli að fá auka orku frá pöllunum.”
 
Hann játar það einnig að það muni skipta sköpum að Ghetto Hooligans mæti með gúrkuna og verði með læti. DJinn spilar “Coco” og þá verður allt vitlaust.
 
Sveinbjörn Claessen, fyrirliði ÍR-inga sagði æfingar undanfarið hafa verið mjög góðar og Bjarni og Árni undirbúið liðið vel.
 
“Við eigum harma að hefna úr fyrri umferðinni. Við erum klárir og gott betur.”  Hann sagði einnig þá alla sem einn muni gera sitt besta og með látum úr stúkunni verði þessum sigri landað.
Fréttir
- Auglýsing -