spot_img
HomeFréttirMatthías: Ekkert ákveðið

Matthías: Ekkert ákveðið

Matthías Orri Sigurðarson brýtur nú heilann um hin ýmsu málefni þessi dægrin en hann og ÍR-ingar máttu naumlega sjá á eftir sæti í úrslitakeppninni þetta tímabilið og þá lék liðið einnig til bikarúrslita en mátti fella sig við silfrið. Matthías fór mikinn með ÍR þetta tímabilið með 16,8 stig, 6,1 frákast og 6,7 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hvað sumarið og framtíðin ber í skauti sér er ekki allsendis ráðið.
 
 
Nám erlendis togar í Matthías sem og auðvitað draumurinn um atvinnumennskuna. „Pabbi er einnig að þreifa fyrir sér í Evrópu en það er mjög ólíklegt held ég,“ sagði Matthías en faðir hans Sigurður Hjörleifsson starfar m.a. sem umboðsmaður. Matthías er með lausan samning en hann samdi við ÍR til eins árs. „Ég hef reyndar ekkert ákveðið ennþá með framhaldið en veran var góð hjá ÍR þetta tímabilið.“
 
„Veturinn hjá okkur í ÍR var rosalega skrýtinn, eins og tvö mismunandi lið hafi verið að spila fyrir og eftir áramót. Yfir heildina litið er ég persónulega nokkuð sáttur með veturinn þótt það sé auðvitað svekkjandi að tapa i bikarurslitunum og vera svona nálægt úrslitakeppninni en það fer allt í reynslubankann sem mun nýtast mér og liðinu vel i framtíðinni. Eins og ég segi þá leitar hugurinn út en það er ekkert öruggt hvað ég geri, varðandi framhald á Íslandi er ég samningslaus eins og er og ætla bara að kanna hvað er i boði,“ sagði Matthías sem vildi einnig kasta kærri kveðju á æskuvin sinn Kristófer Acox, sem skv. stöðufærslu á samfélagsmiðlum 1. apríl, á von á sínu fyrsta barni.
 
„Já hann tilkynnti þetta opinberlega 1. apríl, þá hlýtur þetta að vera deginum sannara,“ sagði Matthías.
  
Fréttir
- Auglýsing -