spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaMatthías: Ætlum að reyna að vinna hvern einasta leik sem við spilum

Matthías: Ætlum að reyna að vinna hvern einasta leik sem við spilum

Matthías Orri sá um Haukana ásamt bróður sínum og var tekinn tali eftir leik:

Ég er alls ekki viss um að röndótt fari þér vel en þú ert örugglega ekki sammála mér…

Neinei! Nei mér finnst það fara mér mjög vel, það er nú það sem ég hef verið í mestmegnis á ævinni þannig að…

…jújú, þú ert auðvitað ánægður að vera kominn aftur í þitt uppeldisfélag – en þú býrð væntanlega að góðum minningum úr Breiðholtinu?

Alveg klárlega. Ég dýrka þann klúbb og allt fólkið í kringum hann. Það var svolítið erfitt að segja bæ en á sama tíma er ég mjög ánægður að vera kominn hérna í KR og að spila með Jakobi bróðir, Jóni og öllum þessum gaurum. Ég gæti ekki verið sáttari núna.

Þú varst kannski ekki mjög áberandi í fyrsta leiknum en alveg frábær núna og klikkaðir ekki úr skoti í fyrri hálfleik held ég! Ertu meiðslalaus og sprækur núna?

Jah, ég er enn með þetta beinmar sem ég var með í úrslitakeppninni en það er að minnka hægt og rólega og ég get alveg spilað á þessu. Þetta fer bara með tímanum, vonandi sem fyrst, og þegar ég tek verkjatöflur þá er ég bara góður!

Akkúrat. Við ættum svo kannski að tala aðeins um þennan leik. Flottur sigur og að endingu bara mjög öruggur að lokum. Mér fannst kannski varnarleikur herðast hjá ykkur eftir því sem á leið og Haukarnir fóru meira og meira að treysta á einstaklingsframtakið. Þá var þetta eiginlega bara komið…

Jájá, við ákváðum að læsa þessu bara alveg í þriðja leikhluta og koma þessu forskoti aðeins upp. Þegar við erum einbeittir í því að spila vörn þá erum við eiginlega alltaf með 5 inn á vellinum sem eru afbragðs varnarmenn. Við getum skipt á mörgum skrínum, erum aggresívir varnarlega, miklir íþróttamenn og fráköstum vel og þegar þannig liggur á okkur þá er erfitt að skora á okkur. Það er svo auðvitað markmiðið að gera það oftar og lengur og klára leikina sem fyrst.

Nákvæmlega. Nú spilaði Brilli lítið, Kristó og Bjössi ekki með – þrír mjög öflugir leikmenn svo gott sem ekki með – þið verðið væntanlega Íslandsmeistarar sjöunda árið í röð?

Það er allaveganna planið. Við ætlum að reyna að vinna hvern einasta leik sem við spilum, það er bara þannig sem KR hugsar. Við ætlum okkur að vinna alla titla, það er markmiðið og verður það um ókomin ár.

Eðlilega – enda eina markmiðið væntanlega að halda sér á toppnum ef maður er staddur þar.

Hérna er meira um leikinn

Fréttir
- Auglýsing -